Vertu í rusli með Grunnskólanum Hellu

Eins og undanfarin ár taka nemendur Grunnskólans á Hellu þátt í að hreinsa umhverfið á vordögum enda lítur skólinn á þessa ruslatínslu sem lið í grænfánaverkefninu sem og hluta af umhverfismennt skólans. Í ár ætlar skólinn að einbeita sér að svæðum í þorpinu sem nemendur heimsækja í útivistartímum sínum en þeir eru: árbakkinn frá frisbígolfvellinum við Nes og niður að Gaddstaðarflötum, jafnvel alveg niður að Ægissíðufossi en þar er oft gengið um með nemendahópa. Hóllinn fyrir ofan Freyvang er gjarnan heimsóttur til að skoða fjallahringinn okkar sem og sandsteinsklappirnar við enda Heiðvangs en þar hafa stundum verið settar upp leiksýningar. Liljulundur er lundurinn milli Hótels Stracta og Pakkhússins og þar er gaman að fara í allskyns ævintýraleiki. Skólalóðin og Rjóðrið þar sem útikennslustofan stendur eru líka þau svæði þar sem nemendur leika sér í frímínútum og nýta hvað mest í útikennslutímum.

Við stefnum að því að vera búin að hreinsa þessi svæði fyrir 1.maí og hvetjum fólk til að taka þátt, tína rusl og gera snyrtilegt í þorpinu okkar.

Úrgangur og rusla er ekkert annað en auðlind á villigötum

 

Go to top