Um skólann

 

Um heimasíðuna,  skólanámskrána og námsáætlanirnar

Námáætlanir og skólanámskrá Grunnskólans á Hellu svo og aðrar upplýsingar um skólastarfið eru birtar  á heimasíðu skólans.  Öll uppsetning miðast fyrst og fremst við heimasíðuna en ekki útprentun og er reynt að gera hana eins aðgengilega og unnt er.   Þannig er þeim sem skoða heimasíðuna gefinn kostur á að velja sér ýmsar nálgunarleiðir.  Þessi ráðstöfun er gerð til þess að reyna að minnka pappírseyðslu og rekstarkostnað og mæta á þann hátt þeirri stefnu sem fram kemur í umhverfissáttmála skólans og einnig til að mæta kröfum um aðhald í rekstri.  Þeim foreldrum/forráðamönnum sem ekki hafa aðgang að internetinu gefst kostur á að fá sérstaka útprentun á skrifstofu skólans.  Fræðslunefnd og Skólaráð fá skólanámskrána og námáætlanir til umsagnar og koma  á framfæri athugasemdum sínum og ábendingum til skólans.

Um skólann

Frá og með 1. janúar 2016 annast Byggðasamlagið Oddi bs rekstur Grunnskólans á Hellu, en að byggðasamlaginu standa Rangárþing ytra og Ásahreppur.  Byggðasamlagið annast einnig rekstur Laugalandsskóla og leikskólanna á Hellu og Laugalandi.  Skólahverfi Grunnskólans á Hellu nær yfir svæðið frá mörkum sveitarfélagsins í austri að Ytri Rangá í vestri.  Auk þess teljast Þykkvibær og bæirnir í Bjóluhverfi og á Ægissíðu til skólahverfisins.Stjórnunarþáttur skólastarfsins er leystur í höndum skólastjórnenda, kennara, kennararáðs, skólaráðs, fræðslunefndar, hreppsnefndar o.fl. 

Skólastarfið mótast fyrst og fremst af gildandi lögum og reglugerðum og einnig af því umhverfi sem skólinn þjónar.  Leitast er við að tengja saman nám og kennslu við það umhverfi og þann bakgrunn sem nemendur koma frá.  Slíkri samtengingu fylgir einnig mikil umfjöllun og fræðsla um umhverfismál.  Nemendur fá að kynnast nokkrum þáttum umhverfisfræðslunnar með beinum hætti (þ.e. með beinni þátttöku).  Má í því sambandi nefna útiskóla, skógrækt, hreinsunarátak og vettvangsferðir um heimabyggð og afrétt.  

Grunnskólinn á Hellu fékk  Grænfánann endurnýjaðan á skólasetningu haustið  2018 í fimmta sinn frá fulltrúa Landverndar.

Í skólanum eru starfræktar alls 10 bekkjardeildir.  Hver bekkjardeild hefur sinn umsjónarkennara.  Auk kennslunnar taka umsjónarkennarar saman heildaryfirlit yfir frammistöðu nemenda og ástundun.  Þeir gegna einnig veigamiklu hlutverki í samskiptum heimilis og skóla.  Umsjónarkennarar færa helstu upplýsingar um nemendur inn í upplýsingakerfi í gegnum heimasíðu  MENTOR, en foreldrar geta nálgast aðgangsorð að þeirri síðu með því að hafa samband við skólann. Leitast er við að koma boðum og upplýsingum til foreldra í gegnum póstkerfi Mentors.    Hver bekkjardeild  hefur sína eigin heimastofu.   Nemendur í 5. - 10. bekk  sækja tíma í náttúrufræðigreinum í náttúrufræðistofu þar sem því verður við komið.  Nemendum dreifbýlisins er ekið daglega með skólabílum til og frá skóla.  Við skólann er starfrækt mötuneyti, sem staðsett er í íþróttahúsinu.  Öllum nemendum skólans gefst tækifæri til að snæða þar fimm daga vikunnar.  Mötuneytisþátttaka er hluti af skólastarfinu og er hádegishlé nemenda fellt inn í stundaskrá einstakra bekkja.   Sjá nánar í kaflanum um mötuneyti.

Daglegt eftirlit með nemendum í frítímum (frímínútum, mötuneyti o.fl.) er í höndum sérstakra starfsmanna þ.á.m. skólaliða, kennara og húsvarðar.  Auk þess koma skólastjórnendur að gæslunni með daglegri umgengni sinni um skólann. 

Í allri starfsemi skólans er leitast við að hafa jafnrétti kynjanna að leiðarljósi, hvort heldur sem nemendur eru í leik eða starfi.  Fræðsla um jafnréttismál er látin samtvinnast námsefni nemendanna með einum eða öðrum hætti.  Má í því sambandi nefna samfélagsfræði, félagsmálafræðslu, lífsleikni og líffræði svo að eitthvað sé nefnt.  Sjá einnig jafnfréttisáætlun skólans. 

Í öllu skólastarfinu er lögð áhersla á að nemendur beri virðingu hver fyrir öðrum og eigum hvers annars. Nemendur eru hvattir til prúðmannlegrar framkomu í garð hvers annars og við alla starfsmenn skólans. Auk þess er nemendum kennt að virða settar reglur jafnt innan skóla sem utan.

Á hverju skólaári má búast við ýmsum uppákomum, sem þróast hjá nemendum og kennurum á hverjum tíma.  Sem dæmi má nefna: Þemaviku/ Bæjarhellu, skólaútvarp, útgáfu skólablaðs, jólaskemmtun, vettvangsferðir, vorhátíð og sýningu á afrakstri vetrarins o.fl.  Allir foreldrar og forráðamenn nemenda, svo og aðrir aðstandendur skólans eru ávalt velkomnir til þess að kynna sér þá starfsemi og það starfsumhverfi sem skólinn býður upp á. 

Upplýsingum um skólastarfið verður reynt að koma á framfæri með heimasíðu skólans, en þar munu birtast fréttir og upplýsingar um verkefni, uppákomur, hátíðir o.fl.

Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð starfar við Grunnskólann á Hellu.  Tilgangur ráðsins er að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda varðandi námsráðgjöf, sérfræðiþjónustu og heilsugæslu.  Þurfi nemandi að mati umsjónarkennara, á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til skólastjóra sem getur lagt málið fyrir nemendaverndarráð.  Nemendaverndarráð kemur saman eins oft og þurfa þykir.  Í ráðinu sitja skólastjórnendur, skólahjúkrunarfræðingur, fulltrúi félagsþjónustu og skólasálfræðingur. 

Skólaráð

Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahaldið. Skólaráð fær til umsagnar áætlanir um skólastarfið s.s. skólanámskrá, árlega starfsáætlun o.fl. Skólaráð er skipað sjö einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla og tveimur fulltrúum foreldra, auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi skólaráða.

 

Skólaráð:

  • fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið.
  • fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar.
  • tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndarsamfélagið.
  • fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda.
  • fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum.
  • fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, almennum starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum menntamálaráðuneyti, öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað.
  • Tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla

 

 2018/2019

Rósa Hlín Óskarsdóttir og Hulda Karlsdóttir fyrir hönd foreldra

Ingibjörg Þóra Heiðarsdóttir og Birta Huld Halldórsdóttir fyrir hönd kennara

Lovísa Sigurðurardóttir  fyrir hönd annars starfsfólks

Lena Ósk Guðlaugsdóttir Sindri Snær Brynjólfsson, Anna Margrét Þrastardóttir  og Ragnheiður Jónsdóttir, fulltrúar nemenda

Berglind Kristinsdóttir fyrir hönd grendarsamfélagsins 

Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri 

Særún Sæmundsdóttir fundarritari

 

 

Fræðslunefnd byggðasamlagsins Odda bs. (Rangárþings ytra og Ásahrepps)

Fræðslunefnd fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn kann að fela henni. Hún sér um að öll skólaskyld börn njóti lögboðinnar fræðslu og fylgist með framkvæmd náms og kennslu í skólahverfinu.  Fræðslunefnd staðfestir starfsáætlun og skólanámskrá skóla ár hvert.  Fulltrúar eru kosnir í nefndina af hreppsnefnd sveitarfélagsins í upphafi kjörtímabils.

 

Fræðslunefnd/Skólanefnd: 2014-2018

Ágúst Sigurðsson, formaður
Sólrún Helga Guðmundsdóttir
Hjalti Tómasson
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Arndís Fannberg

Varamenn:

Hjördís Brynjarsdóttir
Anna María Kristjánsdóttir
Kristinn Guðnason
Magnús H. Jóhannsson
Muhammad Azfar Karim

Birta Huld Halldórsdóttirer fulltrúi kennara frá Grsk. Hellu, Björk Atkins  til vara.

Go to top