Móttaka nýrra nemenda

Í Grunnskólanum á Hellu er lögð áhersla á að taka vel á móti nýjum nemendum .  Þetta er m.a. gert með því að kynna fyrir þeim  og foreldrum þeirra skólahúsið s.s.helstu kennslustofur, gönguleiðir, fatahengi, mötuneyti, innganga o.fl.   Auk þess eru nemendur og foreldrar þeirra  upplýstir um lykilþætti  skólastarfsins, bæði þá námslegu og  þá félagslegu.  Kynningar eins og hér hefur verið lýst fara fram með  formlegum  hætti hvort heldur  sem nemendur hefja skólagöngu sína að hausti eða á einhverjum öðrum  tíma skólaársins.

Þegar nám hefst í 1. bekk (við upphaf skólagöngu)

Flest börn sem hefja skólagöngu sína í 1. bekk Grunnskólans á Hellu koma úr Leikskólanum Heklukoti, en gott samstarf ríkir á milli skólastiganna.   Góð og markviss aðlögun leikskólabarnanna að grunnskólanum  er afar mikilvæg.  Sem dæmi um þetta má nefna að öll börn í elsta árgangi Leikskólans Heklukots koma mánaðarlega í Grunnskólann á Hellu á tímabilinu  frá nóvember fram í maí.  Markmiðið með samstarfinu er að gera skilin á milli skólanna sem eðlilegust og  koma þannig í veg fyrir kvíða og óöryggi hjá þeim nemendum sem hefja nám í 1. bekk.  Starfsmenn Grunnskólans á Hellu leitast einnig við að hafa samstarf við þær fjölskyldur innan skólahverfisins, sem ekki eru með börn sín í leikskólanum og hvetja foreldra til þátttöku í þeirri  aðlögun og í þeim kynningum sem fara fram.

Sem dæmi um aðlögun má nefna eftirfarandi:   Börnin koma að skoða skólann, þau fá m.a. að mæta  í söngstundir, taka þátt í  frímínútum, snæða hátíðarmat fyrir jólin ásamt nemendum og gestum, fá að fara í myndlistar- útivistar- og íþróttatíma með eða án nemenda 1. bekkjar.   Í maí koma þau í vorskóla tvo dagparta í beina skólaaðlögun. Þar teikna þau m.a. sjálfsmynd sem hengd er fyrir ofan snagann þeirra áður en þau mæta að hausti í 1.bekk.

Þegar mögulegt er sér verðandi umsjónarkennari 1. bekkjar um vorskólann því þá hafa börnin náð að kynnast kennaranum sínum áður en grunnskólagangan hefst fyrir alvöru. Fyrsta skóladaginn að hausti kemur hvert og eitt barn í einstaklingsviðtal til umsjónarkennarans ásamt foreldrum. Þar kannar kennarinn m.a. bók- og tölustafaþekkingu barnanna og kennari og foreldrar skiptast á upplýsingum sem skipta máli varðandi skólagöngu barnanna.

Fyrir hönd skólans er samstarfi leik- og grunnskóla stýrt af deildarstjóra og umsjónarkennara 1. bekkjar ár hvert.

Nemendur sem byrja nýir í 2.-.10. bekk.
Foreldrar/forráðamenn hafa samband við skólastjóra/aðstoðarskólastjóra og tilkynna um að barn þeirra á skólaaldri sé flutt í byggðalagið.  Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri býður þá viðkomandi nemanda og foreldrum í heimsókn í skólann til að hitta skólastjóra og umsjónarkennara og ekki síst til þess að skoða skólann. Markmiðið er að nýjum nemendum  finnist þeir velkomnir og  líði vel í skólanum.

Til að ná settum markmiðum er gott að styðjast við eftirfarandi:

 1. Kynna nemanda og forráðamanni starf skólans, skóladagatal, skólareglur, skólahandbók, skólanámskrá og heimasíðu skólans.
 2. Kynna nemanda og forráðmanni skólahúsnæðið (fara í vettvangsferð um skólann).
 3. Að fá upplýsingar frá foreldrum um nemandann sem skipta máli varðandi skólagöngu hans.
 4. Tilkynna starfsfólki um nýjan nemanda.
 5. Umsjónarkennari undirbýr bekkinn þannig að þeir taki vel á móti nýja nemandanum. Gott er að fá einhverja nemendur til að verða „leiðsögumenn”.
 6. Gæta þess að nemandi og foreldrar viti um íþrótta- og tómstundastarf sem í boði er bæði innan skólans og utan.

Nemendur sem ekki kunna íslensku

Nemendurnir koma í viðtal ásamt foreldrum sínum áður en þeir hefja skólagönguna. Deildarstjóri ber ábyrgð á viðtalinu en auk hans eru viðstaddir umsjónarkennari og mjög oft túlkur.
Helstu þættir sem komið er inn á í viðtalinu:

 • Farið yfir stundaskrá nemandans og hún afhent á móðurmálinu sé þess nokkur kostur. 
 • Skóladagatal kynnt og afhent. 
 • Heimasíða skólans kynnt. 
 • Athugað hvort það sé aðgangur að interneti á heimili fjölskyldunnar. 
 • Orðalisti á íslensku og móðurmáli barnsins er afhentur. 
 • Fjallað um sund og íþróttatíma og foreldrum gert grein fyrir að þetta eru skyldufög. 
 • Kynnt hvaða skólagögn nemandinn þurfi. 
 • Óskað eftir námsbókum á móðurmáli nemandans ef mögulegt er. 
 • Óskað eftir vitnisburði, um námsárangur, á ensku frá skóla heimalandsins. 
 • Kynnt hvernig skólinn kemur til móts við nemandann með einstaklingsmiðuðu námi. 
 • Mikilvægi þess að viðhalda móðurmálinu er tíundað.
 • Kynntar reglur varðandi ástundun og forföll.
 • Sagt frá mötuneyti og ávaxtastund.
 • Rætt um skólaakstur ef við á.
 • Kynnt hvaða íþróttir og tómstundir sé hægt að stunda eftir skóla.
 • Spurt um áhugamál nemandans og hvort hann hafi stundað einhverjar íþróttir eða lært á hljóðfæri.
 • Ef nemandi er í 1. – 4. bekk er sagt frá skóladagheimilinu.
 • Foreldrar fá eyðublað á sínu móðurmáli sem kallast innritunar- og flutningstilkynning nýbúa sem þeir eru beðnir um að fylla út heima og senda nemandann með í skólann.
 • Ef nemandi er ekki kominn með kennitölu er minnt á mikilvægi þess að hún berist sem allra fyrst.
 • Talað um nauðsyn þess að skólinn hafi alltaf skráð rétt heimilisfang nemanda, síma, farsíma og netföng foreldra.
 • Gengið er um skólann með nemanda og foreldrum.

Umsjónarkennari undirbýr bekkinn þannig að þeir taki vel á móti nýja nemandanum. Gott er að fá einhverja nemendur til að verða „leiðsögumenn”.


Einstaklingsmiðað nám fyrir nemendur sem ekki kunna íslensku

Mikilvægt er að byrja strax að þjálfa almennan orðaforða og samskipti á íslensku. Kennarar skólans bera ábyrgð á því að haga kennslunni þannig að allir nemendur skólans séu virkir þátttakendur. Það fer eftir aldri og aðstæðum hversu mikið þarf að aðlaga nám nemandans. Því yngri sem börnin eru, þegar þau hefja sína íslensku skólagöngu, þeim mun meira geta þau tekið þátt í námi bekkjarins og þurfa þá aðeins sérstaka kennslu í íslensku. Nemendur á unglingastigi, sem kunna enga íslensku, eiga erfiðara með að taka þátt í bóklegu námi. Hjá þeim er lögð áhersla á íslensku, stærðfræði og ensku. Unglingarnir taka þátt í öllu list- og verkgreinanámi með bekkjarfélögum sínum. Íslenska sem annað mál er yfirleitt kennd í litlum hópum í sérkennslustofu.

Nemendur af erlendu þjóðerni fá kennslu í sínu móðurmáli ef þess er nokkur kostur.

 

Go to top