Skólareglur þessar eru unnar með hliðsjón af reglugerð um skólareglur og aga í grunnskólum nr. 270/2000.  Leitast er við að reglurnar séu skýrar og einfaldar.  Markmiðið með reglum þessum er m.a. að skapa jákvæð viðhorf til skólans, hvort heldur sem litið er á hann sem stofnun eða sameiginlegan vinnustað. 

Ástundun og skólasókn

Nemendur byrja með einkunina 10. Meðfylgjandi eru atriði sem sýna hvað kemur til lækkunar á

ástundunareinkunn.

Seint 0,2 í frádrátt.

Án námsgagna 0,2 í frádrátt.

Fjarvist 0,5 í frádrátt.

Vísað úr tíma 1,0 í frádrátt.

 

Eftirfylgni

Umsjónarkennari upplýsir nemendur um stöðu mála á mánaðarfresti.

 

Einkunn 8,5 - ræðir umsjónarkennari við nemanda.

Einkunn 7,0 - hefur umsjónarkennari samband við foreldra.

Einkunn 6,0 - foreldrar boðaðir á fund með umsjónarkennara og deildarstjóra/skólastjóra.

Einkunn 5,0 - vísað til nemendaverndarráðs.

 

Hækkun ástundunareinkunnar

 

Nemendur geta sótt um hækkun ástundunareinkunnar einu sinni í mánuði. Það er gert á þar til gerðu

eyðublaði sem skilað er til umsjónarkennara. Hafi nemendur hreint borð í tvær vikur eftir að hann

sækir um þá hækkar einkunin um 1,0.

 

Til prentunar: Hækkun ástundunareinkunnar: eyðublað

Veikindi

 

það er á ábyrgð foreldra að tilkynna veikindi.

Eftir 5 daga veikindi í röð fara skólayfirvöld fram á læknisvottorð.

Eftir 10 daga fjarveru frá skóla - leyfi/veikindi er máli vísað til nemendaverndarráðs.

 

Reglurnar hér að ofan eru unnar af stjórnendum skólanna í Rangárvalla-, og Vestur Skaftafellsýslu í samvinnu 

við Skólaþjónustuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Almenn ákvæði

Við leggjum áherslu á gagnkvæma virðingu á milli allra sem hér starfa eða hingað koma.  Hér er jafnt átt við nemendur, starfsfólk og gesti.

 

Við förum eftir öllum þeim siðum og reglum (bæði skráðum og óskráðum) sem gilda í samfélaginu.  Stefnt er að því að samskiptareglur séu öllum kunnar og viðurlög við brotum skýr.

 

Allir nemendur skólans eiga rétt á að láta sér líða vel í skólanum og njóta öryggis.  Þeir eiga rétt á að vera lausir við hverskonar stríðni, meiðingar, hrekki og einelti í skólanum eða á leið sinni í og úr skóla.  Nemendur verða  því að vera reiðubúnir til þess að taka á sig skyldur gagnvart skólasystkinum sínum og öðrum.

 

Góður og réttlátur agi bætir líðan nemenda.  Hann bætir kennslu og námsumhverfi skólans og eykur líkur á að nemendur tileinki sér eðlileg viðmið varðandi umgengni og hegðun.

 

Engum er heimilt með óæskilegri hegðun, að skerða rétt annarra til þess að læra og starfa í skólanum.

 

 

Skólasókn

Samkvæmt lögum skulu allir nemendur á skólaskyldualdri sækja grunnskóla nema veikindi eða önnur forföll hamli.

 

Nemendur eiga að mæta á réttum tíma í skólann og í allar kennslustundir.  Þetta gildir alla hefðbundna skóladaga.  Ef veikindi hamla skólasókn verða foreldrar/forráðamenn  að tilkynna forföll barna sinna til skólans símleiðis samdægurs.

 

Ef nemendur þurfa að fá tímabundið leyfi frá skólasókn í skamman tíma þurfa foreldrar/forráðamenn að sækja um það til umsjónarkennara nemandans.

 

Ef nemendur þurfa að fá leyfi frá skólasókn í fleiri en tvo daga þurfa foreldrar/forráðamenn að sækja um það skriflega til skólastjórnenda.

Heilræði og úrræði

Skólasókn hefur mjög mikil áhrif á velgengni nemenda í námi.  Góð skólasókn er m.a. að mæta í skólann á hverjum skóladegi og á réttum tíma í kennslustundir.

 

Mæti nemandi ekki í skólann án viðhlítandi skýringa verður haft samband við foreldra/forráðamenn til að leita upplýsinga um ástæður.

 

Skrópi nemandi eða komi ítrekað of seint í kennslustund mun umsjónarkennari tala við foreldra/forráðamenn til að finna sameiginlegar leiðir til úrbóta.

 

Ef aðgerðir bera ekki tilætlaðan árangur tilkynnir umsjónarkennari það til foreldra og skólastjóra.  Skólastjóri boðar þá til fundar með nemandanum, foreldrum/forráðamönnum hans og öðrum þeim aðilum sem málið varðar (fagaðilum) til þess að gera áætlun um úrbætur sem leiða til  áframhaldandi skólavistar. 

 

 

Ástundun

Mikilvægt er að nemendur leggi sig fram í náminu og í allri sinni vinnu í skólanum hvort heldur sem er í kennslustundum eða í heimanámi.  Nemendur þurfa að sinna námi sínu af  samviskusemi og vandvirkni.

 

Nemendur skulu mæta með námsgögn sín og heimaverkefni í viðkomandi    kennslustundir og temja sér vönduð vinnubrögð í meðferð námsefnis og úrlausna.

 

Nemendur mæti með íþrótta- og sundföt samkvæmt stundaskrá og temji sér hreinlæti og góða umgengni og tillitssemi í búningsklefum.

Heilræði og úrræði 

Ástundun er það hvernig nemendur rækja skyldur sínar í skólanum.  Ástundun er mjög mikilvæg til þess að ná góðum árangri.  Nemendur bera sjálfir meginábyrgð á námi sínu.  Kennarar eru nemendum til leiðsagnar í skólanum en heima gegna foreldrar/forráðamenn því hlutverki.

 

Ef nemandi leggur sig ekki fram við lærdóminn, vandar sig ekki, sinnir ekki þeirri vinnu sem honum er sett fyrir eða mætir ekki með tilskilinn búnað, verður námsárangur hans lakari en ella.

 

Ef nemandi svíkst oft um að læra eða mæta með tilskilinn búnað í kennslustundir, mun kennarinn leita skýringa.  Ef engar ástæður finnast, áminnir kennarinn nemandann.  Ef ekki verður breyting til batnaðar verður talað við foreldra/forráðamenn hans og leitað leiða til úrbóta og viðeigandi ráðstafanir gerðar í samráði við fagaðila. 

 

 

Kurteisi og sjálfsagi

Nemendur sýni öllum kurteisi og tillitssemi í framkomu sinni, umgengni og málfari.

 

Nemendur eiga að taka ábendingum og fyrirmælum kennara og annarra starfsmanna vel.

Heilræði og úrræði

Kurteisi og sjálfsagi stuðla að farsæld í samskiptum og aukinni velgengni nemenda í skólanum.  Almenn kurteisi er m.a. að heilsa og taka undir kveðjur annarra, biðjast afsökunar og kunna að þakka fyrir sig.  Það er ekki kurteisi að ryðjast áfram, vera með fyrirgang og háreysti eða nota ljótan munnsöfnuð.  Áreitni svo sem stríðni, hrekkir, slagsmál og einelti eru óviðunandi hegðun.

 

Ef nemandi er ókurteis við aðra nemendur, kennara eða aðra starfsmenn skólans er hann að brjóta skólareglurnar.

 

Hlýði nemandi ekki fyrirmælum kennara eða annarra starfsmanna skólans er hann að brjóta skólareglurnar.

 

Áreiti nemandi aðra, stríði, hrekki, eigi þátt í slagsmálum eða einelti er hann að brjóta skólareglurnar (sjá nánar eineltisáætlun skólans).

 

Við brot á skólareglunum fær nemandi áminningu frá kennara.  Ef áminningin ber ekki árangur mun kennari tala við foreldra/forráðamenn nemandans og leita þannig úrbóta.  Ef ekki verður breyting til batnaðar mun skólastjóri boða til fundar með nemandanum, foreldrum/forráðamönnum  hans og öðrum sem málið varðar til þess að gera áætlun um úrbætur og setja skilyrði fyrir áframhaldandi skólavist í samráði við fagaðila. 

 

Umgengni og ábyrgð

Allir skulu ganga vel um skólann og skólalóðina og annað húsnæði sem skólinn notar.  Nemendur temji sér góða umgengni í meðferð búnaðar og námsgagna.

 

Nemendur gæti þess að ganga hljóðlega um skólann og varast að trufla kennslu þegar þeir eru á ferð um skólahúsið.

 

Nemendur yngri deilda þ.e í 1. - 7. bekk skulu að jafnaði vera úti á skólalóðinni í frímínútum.

 

Nemendur skilja útiskó eftir í forstofu og yfirhafnir á snögum.  Af öryggisástæðum er ætlast til þess að nemendur gangi á harðbotna inniskóm innan skólans.

 

Nemendur þurfa að gæta þess að borða góðan og hollan morgunmat áður en þeir fara í skólann. (Nemendur fá  morgunhressingu (ávexti / grænmeti) í skólanum .  Nemendur mega einnig hafa með sér hollt nesti í skólann.  Nestistímar eru skipulagðir við gerð stundaskrár.

 

Neysla sælgætis og gosdrykkja er óheimil nema við sérstök tækifæri.

 

Nemendum er heimilt að koma á reiðhjólum í skólann þegar færð og veður leyfa. Þeim nemendum sem koma hjólandi í skólann er skylt að geyma hjólin á þar til gerðum geymslusvæðum og nota þau ekki til leiks á skólatíma.
Reiðhjól skulu vera læst á geymslusvæðum.   Nemendum er óheimilt að koma í skólann á hlaupahjólum, hjólbrettum, hjólaskautum/línuskautum eða með aðra hluti sem valdið geta slysum. 

 

Mælst er til að nemendur komi ekki í skólann með farsíma, tölvuspil, ferðaspilara s.s. iPoda, Mp3 spilara og eða annað sem truflað getur nemendur frá námi.  Farsímanotkun og  notkun ferðaspilara er með öllu bönnuð á kennslutíma. 

 

Mælst er til að nemendur komi ekki með fjármuni eða verðmæta hluti í skólann.  Skólinn tekur ekki ábyrgð á þeim hlutum sem nemendur koma með í skólann eða áatburði tengda skólanum, óbeðnir.

 

Mælst er til að nemendur dreifi ekki afmælisboðskortum í skólanum.

 

Öll meðferð áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er stranglega bönnuð innan vébanda skólans.  Þetta gildir einnig um skólaheimsóknir og skólaferðalög.

Heilræði og úrræði

Umgengni lýsir innra manni.  Góð umgengni felst m.a. í að virða eigur annarra og hirða um sínar eigin.  Að stofna hvorki sjálfum sér né öðrum í hættu með gáleysi.  Að taka ábyrgð á eigin heilsu með hollri næringu, hreyfingu og hvíld.  Mikilvægt er að spilla hvorki umhverfi né náttúru.

 

Gangi nemandi illa um eigur skólans er það alvarlegt brot á reglum skólans  sem tekið verður á með viðkomandi hætti.  Ef nemendur valda vísvitandi skemmdum á eigum skólans ber þeim (eða foreldrum/forráðamönnum þeirra) að bæta tjónið.

 

Ef nemendur verða staðnir að því að nota reiðhjól, sín eða annarra til leiks eða óþarfa ferðalaga mega þeir búast við að starfsmenn skólans læsi hjólunum og afhendi þau ekki fyrri en að skóladegi loknum. Við endurtekin brot  verða  foreldrar að sækja reiðhjól barna sinna að skóladegi loknum.  Sömu ákvæði gilda ef nemendur brjóta bann við notkun á hlaupahjólum, hjólbrettum, hjólaskautum/línuskautum  o.fl.

 

Ef nemendur verða staðnir að því að nota farsíma eða ferðaspilara í kennslustundum, munu starfsmenn skólans gera tækin upptæk.  Við ítrekuð brot verður foreldrum gert að sækja tækin til skólans.

 

Alvarleg brot á skólareglunum geta leitt til lögreglurannsóknar og samráðs við fagaðila um lausnir til þess að tryggja áframhaldandi skólavist

  

 

Go to top