22. fundur Skólaráðs haldinn 8.nóvember 2017 kl.15:00

Mætt eru Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Rósa Hlín Óskarsdóttir og Hulda Karlsdóttir fyrir hönd foreldra, Ingibjörg Þóra Heiðarsdóttir og Birta Huld Halldórsdóttir fyrir hönd kennara, Lovísa Sigurðurardóttir sat fundinn fyrir hönd annars starfsfólks en eftir er að kjósa um hver mun sitja í skólaráði fyrir hönd þess. Lena Ósk Guðlaugsdóttir og Hekla Steinarsdóttir fulltrúar nemenda. Berglind Kristinsdóttir fyrir hönd grendarsamfélagsins var ekki mætt.

Að auki sátu fundinn Valgerður Sigurðardóttir, Anna Guðlaug Albertsdóttir og Særún Sæmundsdóttir fulltrúar innra mats en Særún ritaði einnig fundargerð.

1.Sigurgeir fór yfir hlutverk skólaráðs og mikilvæg þess, m.a. þarf nú að endurskoða skólareglurnar og mikilvægt að skólaráð taki þátt í þeirri vinnu.

2.Hekla og Lena fóru yfir félagslífið á elsta stigi, sögðu m.a. frá Halloween balli sem er í kvöld á mismunandi tímum fyrir alla bekki, en 10.bekkur skipuleggur þessa skemmtun fyrir alla bekki. Þær sögðu einnig frá því að 9. og 10. bekkur væru á leið í heimsókn í Menntaskólann á Laugarvatni á morgun en þar mun dagurinn enda á því að nemendur fá að fylgjast með söngvakeppninni "Blítt og létt". Þeim finnst félagslíf skólans nóg, stundum bara alltof mikið. Þær bentu á að ísskápurinn sem nemendafélagið hefur í sjoppunni sé ónýtur svo það þarf að skoða það að endurnýja hann.

3. Sigurgeir sagði frá skólaútvarpinu sem nú fer í loftið í 30. sinn. Búið er að fá leyfi frá fjarskiptastofnun. Við uppsetningu á tækjum undanfarin ár hefur Fúsi húsvörður verið mjög hjálplegur.

4. Foreldraviðtöl framundan. 9.bekkjar viðtölin verða með öðru sniði en verið hefur, þ.e. nemendur hitta umsjónarkennara ásamt kennurum sem kenna stærðfræði og íslensku, að auki mun aðstoðarskólastjóri sitja þessa fundi. Fyrirhugaðir eru sambærilegir fundir með nemendum 10.bekkjar þó það verði ekki á þessum tíma.

5. Farið yfir heimavinnuáætlun Grunnskólans Hellu sem búið er að kynna á fundum með foreldrum allra barna nema á elsta stigi. Rósa Hlín spurði hvort rætt hefði verið heimavinnufrí í desember, henni fannst samt mikilvægt að heimalestri væri alltaf sinnt. Tillaga á næsta kennarafundi varðandi þetta, einnig hugmynd að í stað heimanáms á þessum tíma væri nemendum gefinn kostur á að klára það sem þeir ekki hafa náð að klára.

6. Skólapúlsinn mælir líðan nemenda í október og mars, síðan er lögð fyrir foreldrakönnun og starfsmannakönnun til skiptis annað hvert ár. Hekla benti á mikilvægi þess að farið væri yfir skólapúlsinn með nemendum þ.e. hvernig á að taka svona könnun. Særún, Valgerður og Anna Guðlaug byrjuðu að fara yfir hugmyndir nemenda varðandi viðbrögð og lausnir á atriðum sem ekki komu nógu vel út í skólapúlsinum sl. vor. Gott ef skólaráð getur tekið þátt í að finna lausnarmiðaðar leiðir ásamt innra matsnefndinni, ekki vannst tími til að fara yfir alla punktana en verður tekið fyrir áfram á næsta fundi. 

7. Ytra mat; endurskoðaðar skólareglur. Sigurgeir sagði frá því að endurskoða ætti skólareglur Grunnskólans Hellu í vetur og væri gott að skólaráð tæki þátt í þeirri vinnu. Lagði fram sýnishorn af skólareglum sem og hvað grunnskólalögin segja um hvað skólareglur eigi að innibera. Fyrirspurn kom frá nemendum um hvort leyfi lækki ástundunareinkunn, en svar við því er að það gerir það ekki. Ákveðið að vinna meira í skólareglunum á næsta fundi.

8.  Fyrirspurn frá Huldu varðandi þá umræðu út í samfélaginu að mikið einelti eigi sér stað í skólanum og skólinn gerir ekkert í því. Sigurgeir benti á að í ytra mati skólans sem fór fram í fyrra og var unnið af utanaðkomandi aðilum kom ekki fram að einelti væri að eiga sér stað í skólanum. Fulltrúar kennara og starfsfólk skólans sammála því að í skólanum sé alltaf verið að taka á svona hlutum, þ.e. samskiptavandamálum sem upp koma innan nemendahópsins en að sjálfsögðu getur skólinn ekki tjáð sig um einstök mál út á við.

Fyrirhugað er að hafa næsta fund skólaráðs miðvikudaginn 6.desember kl 15.00

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið klukkan rúmlega 16:00.

Særún Sæmundsdóttir ritaði fundargerð.

Go to top