Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Hjördís Jónsdóttir og Ólafur Örn Oddsson fulltrúar kennara, Lovísa Björk Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna skólans, Helga Dagrún Helgadóttir fulltrúi grenndarsamfélags, Heiðrún Ólafsdóttir og Ingibjörg Gunnarsdóttir fulltrúar foreldra. Að auki Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.

1.    Eitt af hlutverkum skólaráðs er að fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin (úr 8. gr. grunnskólalaganna 2008).  Skv. þessu er það skylda skólaráðs að fjalla um og veita umsögn um fyrirhugaða stækkun á húsnæði skólans.
2.     Fulltrúar í skólaráðinu (nefndarmenn) skoðuðu frumdrög að teikningum að stækkun skólans vandlega. Þar er m.a. lagt til að grunnskólahúsnæðið og íþróttamiðstöðin verði tengd saman með glerbyggingu þannig að sundið milli skólans og íþróttahússins lokast. Einnig er lagt til að framhaldsskóli rísi á grunnskólalóðinni og ekki er gert ráð fyrir skóladagheimili, né smíðastofu á þessum teikningum. Nefndin velti m.a. fyrir sér hvort samfélagið vilji að gönguleiðinni milli skólans og íþróttahússins verði lokað? Vilja íbúar að grunnskóli og framhaldsskóli séu á sömu lóðinni? Hver á framtíðarstefna skólans að vera? Hvar á skóladagheimilið að verða? Eða smíðastofan?
3.    Nefndarmenn eru þeirrar skoðunar að skynsamlegra sé að grunnskólinn og íþróttamiðstöðin verði tengd neðanjarðar eða með loftbrú.  Þannig ekki þurfi að loka gönguleið íbúanna. Einnig telur nefndin hagkvæmara að nýbyggingin rísi í framhaldi af núverandi stjórnunarálmu og stigahúsi skólans. Það eru til gamlar teikningar af slíku húsi. Þær teikningar voru skoðaðar.
4.    Nefndarmenn eru á því að löngu sé orðið tímabært að það verði sett upp hraðahindrun og göngubraut yfir Útskálarnar. Helst þyrfti að lækka hámarkshraða í götunni niður í 15 km/klst og banna akstur mótorhjóla eftir götunni og á göngustígum til að auka öryggi allra sem þarna fara um. Ef þetta yrði gert, og leiksvæðið við Útskálar 1 yrði stækkað, telur nefndin koma vel til greina að flytja skóladagheimilið í það húsnæði eftir að Trölladeild leikskólans Heklukots flytur í nýja húsnæðið sem er verið að byggja.
5.    Kristín Hreinsdóttir forstöðumaður Skólaskrifstofu Suðurlands kemur á næsta fund skólaráðsins en hún hefur tekið að sér að leiða umræðu ráðsins um framtíðarhúsnæði skólans.
6.    Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16.
Go to top