Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Ólafur Örn Oddsson fulltrúi kennara, Lovísa Björk Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna skólans, Torfi Gunnarsson fulltrúi grenndarsamfélags, Heiðrún Ólafsdóttir fulltrúi foreldra, Reynir Óskarsson og Heimir Smári Heimisson fulltrúar nemenda.
Að auki Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.
Hjördís Jónsdóttir fulltrúi kennara og Ingibjörg Gunnarsdóttir fulltrúi foreldra boðuðu forföll.
   
1.    Félagsstarf unglingastigsins. Það fer nú fram annað hvert miðvikudagskvöld en var áður á hverju miðvikudagskvöldi. Kvöldunum var fækkað í sparnaðarskyni en einnig til að félagslífið yrði gróskumeira. Kennarar og nemendur eru á því að það hafi tekist en samt er ekki nógu góð mæting á þessi kvöld. Það þarf að hvetja krakkana til að verða duglegri að mæta.
10.    bekkur tók upp þá nýbreytni í haust að selja 8.-10. bekk grillaðar samlokur
í frímínútunum á föstudögum. Krakkarnir í 10. bekk hafa staðið vel að undirbúningi og skipulagningu sölunnar og hefur hún mælst mjög vel fyrir hjá nemendum. Það hefur munað miklu í þessu sambandi að unglingarnir eru aftur komnir með sjoppuaðstöðu við setustofu sína.
10. bekkur tók þátt í verkefninu „Hugsað um barn“ í nóvember. Það gekk mjög vel nema hvað það slokknaði á dúkkunum hálfum sólarhring fyrr en áætlað var.
Söng- og ræðukeppni skólanna þriggja á Hellu, Laugalandi og Hvolsvelli verður haldin hjá okkur 28.janúar n.k.

2.    Skólanámsskrá og heimasíða. Fulltrúar foreldra komu með nokkrar athugasemdir og ábendingar sem voru teknar til athugunar. Skólastjóri benti á að pappírseintökin bæru þess merki að vera prentuð út af heimasíðu sem er ekki fullfrágengin. Það er verið að vinna að nýrri heimasíðu. Hún er komin á netið undir slóðinni  http://grhella.is/ en það á eftir að fullvinna hana.

3.     Verknáms- og búningaaðstaða. Eftir að líkamsræktarstöðin opnaði í kjallara íþróttahússins og samfella í íþrótta- og skólastarfi hófst hefur álagið á búningsklefa sundlaugarinnar aukist mikið. Íþróttahúsið þarf á rými smíðastofunnar að halda til að geta fjölgað búningsklefum. Þá vantar hús undir smíðastofu- og vélfræði. Hugmyndir eru um að fá stálgrindarhús á skólalóðina, undir þessi fög, sem yrði innangengt í úr skólahúsinu.

4.    Sparnaður. Skólastjóri rakti hugrenningar að leiðum til sparnaðar árið 2010. Má þar nefna að fækka forfallatímum, þ.e. að nemendur verði sendir heim þegar kennarar forfallast og að fækka valgreinum á unglingastigi. Ýmsir sparnaðarliðir eru komnir til framkvæmda. T.d. hafa pappírskaup dregist mikið saman með tilkomu Grænfánaverkefnisins, verkefnið „Tónlist fyrir alla“ verður aðeins einu sinni þetta skólaár en hefur verið tvisvar sinnum undanfarin ár, vettvangsferðum með rútum hefur fækkað og vegalengdirnar hafa styst. Það er búið að ákveða að þær vettvangsferðir sem farnar eru verði í nærumhverfinu s.s. að skoða Gunnarsholt, Keldur, Odda, Heklusetrið og Skógasafn.

5.    Fjárhagsáætlun. Skólastjóri fór yfir fjárhagsáætlun ársins 2010.

6.    Útikennsla.  Kennarar í umhverfis- og útivist eru komnir með kennsluaðstöðu í móanum fyrir ofan götuna Laufskála. Almenn ánægja er með útikennsluna og er stefnt á að hún vaxi upp í 7. bekk . Nú eru það 1. – 5. bekkur sem njóta hennar.

7.    Skóladagheimilið. Það er komið í stærra húsnæði með afgirtri lóð að Útskálum 1. Starfsfólki og nemendum líður mjög vel þar og ríkir almenn ánægja með þennan flutning.
Síðustu ár hefur skóladagheimilið breyst í „Kakókot“ kl. 8:30 – 9:30 á morgnana, í tvær vikur í desember. Þá bjóða nemendur og starfsfólk skóladagheimilis nemendum og starfsfólki skólans, einum til tveimur bekkjum í einu, í kakó og piparkökur sem þau hafa bakað sjálf. Þetta er notaleg tilbreyting í skammdeginu sem allir njóta vel.

8.    Forföll. Það er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn hringi á hverjum degi til að láta vita ef nemendur eru veikir. Ritari hringir heim til þeirra sem ekki tilkynna forföll á morgnana.

9.    Lovísa kom með ábendingu um að það vanti lýsingu á íþróttavöllinn. Í morgunfrímínútunum er svartamyrkur þar á þessum árstíma. Torfi lagði til að það yrðu settir upp tímastilltir kastarar sem myndi kvikna á rétt fyrir frímínútur og slokkna á rétt eftir frímínútur.

10.    Skólaútvarpið verður starfrækt 15. – 17. desember. Nemendasjóðurinn ber allan kostnað við rekstur útvarpsins s.s. við leyfis- og stefgjöld.

11.    Næsti fundur skólaráðs er áætlaður í febrúar.

12.    Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16:20.
Go to top