6. fundur skólaráðs Grunnskólans á Hellu 26. janúar 2011 kl. 15

Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Sigríður Theódóra Kristinsdóttir og Þórhalla Sigmundsdóttir fulltrúar kennara, Guðbjörg Arnardóttir formaður foreldrafélagsins, Berglind Kristinsdóttir og Torfi Gunnarsson kjörnir fulltrúar foreldra, Lovísa Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna, Karen Eva Sigurðardóttir og Grétar Ingi Guðmundsson fulltrúar nemenda og Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.

1. Sigurgeir byrjaði á að bjóða alla velkomna og lýsti yfir ánægju sinni með að allir fulltrúar ráðsins skyldu hafa komist á fundinn.

2. Rætt um félagsmál unglinganna og þá breytingu að félagsmiðstöðin er komin undir hatt skólans. Fulltrúar nemenda sögðu að nemendur væru almennt sáttir við þessa breytingu. Hins vegar lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum sínum af því hvað verði þegar þurfi að rýma húsnæðið í lok apríl. Það verður erfitt að koma tækjum félagsmiðstöðvarinnar fyrir innan skólans.

3. Það er stefnt á að hafa félagsmiðstöðina opna, fyrir unglinga úr Grunnskólanum á Hellu og Laugalandsskóla, annað hvert fimmtudagskvöld til vors.  Félagsmiðstöðin er ekki opin yngri börnum en kennarar geta fengið afnot af húsnæðinu og farið með nemendur sína þangað t.d. á bekkjarkvöld eða við önnur hentug tækifæri.

4. Fulltrúar unglinganna í skólanum fóru á fund oddvita í haust til að ræða félagsmálin.  Þeir fengu mjög góða umsögn frá oddvita eftir fundinn.

 

5. Grunnskólinn á Hellu heldur árshátíð skólanna þriggja Hvolsskóla, Laugalandsskóla og Grunnskólans á Hellu þetta árið. Hún verður 14. apríl n.k. Það verður alvöru hljómsveit á árshátíðinni eins og á haustballinu. Sú hefð hefur skapast að fá flottar hljómsveitir á þessar tvær sameiginlegu skemmtanir á hverju skólaári. Sigurgeir hvatti skólaráðsfólk til að mæta á hátíðir skólanna og sjá hvað umgjörðin er vönduð og hvað unglingarnir eru til mikillar fyrirmyndar. Sigurgeir sagðist sjaldan hafa verið með eins ljúfa krakka á unglingastigi.

 

6. Rætt um vorferð 10. bekkjar. Farin að berast tilboð í gistingu.

 

7. Það verður fundur 23. febrúar næstkomandi fyrir 10. bekk og foreldra þeirra með námsráðgjöfum Fsu og ML. Spurt var hvort þeir legðu áhugasviðskönnun fyrir nemendurna. Það er ekki vaninn að þeir geri það.

 

8. Skóla- og íþróttasamfella gengur ágætlega. Stefnt á að reyna að hafa hana með svipuðu sniði næsta vetur.

 

9. Sigurgeir kynnti nokkrar hugmyndir að sparnaði í rekstri grunnskóla.  Stjórnendur Grunnskólans á Hellu og Laugalandsskóla eru um þessar mundir að vinna að sameiginlegum tillögum í því efni, sem kynntar verða fljótlega. Ein af þeim hugmyndum, sem uppi eru, er sú að stytta skólaárið um eina viku að hausti og eina viku að vori og bæta nemendum upp þann tíma sem tapast með lengdri vikulegri skólaviðveru. Í framhaldi af þessu var lögð fram til umræðu fyrstu hugmyndir að skóladagatali fyrir skólaárið 2011-2012.  Skóladagatalið og sparnaðarhugmyndirnar verða kynntar nánar fyrir nefndarmönnum þegar þær hafa verið fullunnar.  Nokkrar umræður fóru fram um þessi mál og komu fram efasemdir, meðal hluta nefndarmanna, um að það gangi upp að stytta skólaárið. 

 

10. Umræður um forvarnamál.  Sigurgeir lýsti yfir ánægju sinni með að Litli forvarnarhópurinn sé kominn í gang aftur undir stjórn séra Guðbjargar Arnardóttur. 1. fundur hópsins var 24. janúar s.l. Fram kom að unglingar á grunnskólaaldri í sveitarfélaginu eru til fyrirmyndar. Útivistartímar eru virtir. Krakkarnir neyta ekki áfengis og enginn nemandi Grunnskólans á Hellu reykir, en slík staða hefur ekki komið upp í skólanum í mörg ár.

Nefndarmenn lýstu yfir leiða yfir því að ruslaföturnar í þorpinu hafi verið sprengdar (eða eyðilagðar) í kringum áramótin.  Þeirri hugmynd var velt upp hvort starfsmenn Áhaldahússins þurfi að skrúfa þær niður á þessum árstíma til að koma í veg fyrir skemmdir.

 

11. Innra mat skólans var kynnt fyrir skólaráðinu.   Fram kom að vinna við innra matið gangi vel undir stjórn Birtu Huldar Halldórsdóttur kennara. Árný Elíasdóttir ráðgjafi frá Attentus er stýrihópi um innra mat til leiðsagnar um þessa vinnu.

 

12. Kynntar voru hugmyndir að nýju leiðarljósi Grunnskólans á Hellu.  Allir starfsmenn skólans koma að þeirri vinnu.

 

13. Lögð var fram spurning um hvort nemendur mæti vel í hafragrautinn á morgnana.  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum, þá munu 20 til 30 nemendur mæta að jafnaði á hverjum morgni.

 

14. Það er búið að breyta fyrirkomulaginu á ávaxtastundunum. Starfskonur mötuneytisins koma með ávextina niðurskorna á bökkum inn í skólann. 1. – 7. bekkur borðar ávextina ýmist fyrir eða eftir löngu frímínútur í stofunum sínum. 8. – 10. bekkur fær ávexti í frímínútunum.

 

15. Verkefnið Hugsað um barn verður í gangi, hjá þeim nemendum sem vilja, í 10. bekk 18. til 21. febrúar n.k. Nú er komið í ljós að ekki fást lengur einingar út á verkefnið í Fsu.  Það var samt ákveðið að halda verkefninu áfram því nemendur sóttu það stíft að fá að taka þátt í verkefninu.  Verðið á námskeiðinu hefur lækkað töluvert. Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með verkefnið og töldu það hafa mikið forvarnargildi.

 

16. Spurt var hvort til væri yfirlit yfir það hvernig nemendur úr Grunnskólanum á Hellu standi sig í framhaldsskólum. Sigurgeir veit ekki til þess að formleg athugun á þessu hafi verið gerð.  Hann sagði hins vegar að skólameistarar Fsu og ML hrósi nemendum úr okkar skóla og telji þá koma vel undirbúna undir framhaldsnámið.  Einnig hefur komið fram að nemendur héðan séu yfirleitt öflugir í félagslífinu, sérstaklega í ML.

 

17. Ákveðið að halda næsta fund innan þriggja vikna.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16

Go to top