7. fundur skólaráðs Grunnskólans á Hellu 16. mars 2011 kl. 15

Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Sigríður Theódóra Kristinsdóttir og Þórhalla Sigmundsdóttir fulltrúar kennara, Guðbjörg Arnardóttir formaður foreldrafélagsins, Berglind Kristinsdóttir og Torfi Gunnarsson kjörnir fulltrúar foreldra, Lovísa Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna og Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.  

1. Sigurgeir byrjaði á að bjóða alla velkomna. Hann baðst afsökunar á því hvað hafi dregist að halda fundinn en ástæða þess er sú að við höfum verið að bíða eftir svari frá menntamálaráðuneytinu varðandi styttingu skólaársins (sjá nánar í lið 5). Hann sagði að fulltrúar nemenda væru ekki á fundinum vegna þess að nemendur 10.bekkjar eru í Reykjavík í starfskynningu dagana 16. – 18. mars.

2. Sigurgeir bað Lovísu að finna netföng, hjá fulltrúum skólaráðsins, í Mentor og setja saman netfangalista svo hægt sé að senda dagskrána í tölvupósti fyrir fundi.

3. Vinna við innra mat skólans gengur mjög vel. Stýrihópurinn hittist vikulega og langflestir starfsmenn eru í mismunandi vinnuhópum í tengslum við sjálfsmatsvinnuna.

 

4. Það er verið að undirbúa vorhátíð og árshátíðina sem verður haldin í íþróttahúsinu á Hellu 14. apríl. Vegna hennar hittust fulltrúar úr nemendaráðum grunnskólanna í sýslunni á fundi í skólanum hjá okkur 7. mars s.l. Þar var m.a. rætt um hvert þemað skuli verða og hvaða hljómsveit ætti að fá til að spila á ballinu.  

 

5. Skólastjórnendur grunnskólanna á Hellu, Laugalandi og Hvolsvelli funduðu 7. mars s.l. Þar var m.a. rætt um styttingu skólaársins um tvær vikur, næstu tvö árin, sem sparnaðarleið.   Sigurgeiri var falið að senda inn formlegt erindi, undirritað af skólastjórunum þremur, til menntamálaráðuneytisins þar sem leitað er álits þess á þessari leið. Sigurgeir sendi erindið 7. mars. Hann fékk svar 8. mars um að það sé verið að skoða þetta og verði svarað fljótlega en það svar hefur ekki borist enn.

 

6. Sigurgeir lagði fram skóladagatal fyrir skólaárið 2011 -2012. Samkvæmt því mun skólaárið styttast um tvær vikur. Eina að hausti og eina að vori. Kennslustundum þessara tveggja vikna verður bætt við aðrar kennsluvikur skólaársins þannig að nemendur munu fá lögbundinn kennslustundafjölda yfir árið. Í 1.- 5. bekk þarf að bæta við tveimur kennslustundum á viku en aðeins 5 mínútum á dag í 6. – 10. bekk þar sem þessir bekkir fá 15 mínútur á dag í lestrarstundir sem er umfram lögbundinn kennslustundafjölda á viku. Við þessa breytingu mun kennslustundunum yfir skólaárið fjölga um átta á yngsta stigi, fækka um tvær á miðstigi og fækka um sex á unglingastigi.

Með því að stytta skólaárið um tvær vikur næst fram sparnaður á yfirvinnu, ræstingum, starfi skólaliða, mötuneyti, skóladagheimili, skólasamfellu og skólaakstri – sem munar mest um. Fulltrúi foreldra sagði að sér þætti þetta skynsamlegri leið heldur en að fækka kennsludögum hvers mánaðar um einn því þessar vikur falla inn í sumarleyfistímabil foreldra.

 

 

Skólaráð samþykkir skóladagatal 2011 - 2012 með styttingu skólaársins ef menntamálaráðuneytið telur að ekki sé verið að brjóta lög. Ráðið telur jákvætt að skólarnir í sýslunni ætli að samræma aðgerðir sínar.

 

7. Skólanum býðst að fá Mýrarkot, gamla leikskólann á Laugalandi, undir smíða-, vélfræði og myndlistarstofur. Húsið yrði sett á skólalóðina og tengt við skólahúsið þannig að það yrði innangengt á milli. Húsið seig á byggingartíma en er ekki skemmt að öðru leyti eftir jarðskjálfta. Það er aðeins fúið undir gluggum á suðurhlið. Það er talið einfalt að laga það með því að minnka gluggana sem þyrfti hvort sem er að gera.

Umsjónarmaður fasteigna er að reikna út hvað kosti að flytja húsið og að gera það í stand.

Með þessu myndi íþróttahúsið fá rými smíðastofunnar undir sína starfsemi sem er mjög aðkallandi því það vantar m.a. fleiri geymslur og búningsklefa þegar keppnisleikir fara fram í húsinu.

Skólaráð lýsir yfir efasemdum sínum varðandi það að fá gamalt hús sem óljóst er hvernig þoli flutninga og hvað kosti að gera upp. Einnig telur ráðið líkur á að húsið dagi uppi á skólalóðinni þótt þetta eigi að verða bráðabirgðalausn. Ráðið telur æskilegra að kaupa nýja kennslustofu sem er örugglega í lagi og verði tengd við skólann til framtíðar. Reynslan sýnir að lausar stofur séu notaðar svo lengi að fulltrúum ráðsins finnst mikilvægt að þær séu í góðu lagi þegar byrjað er að nota þær.

 

Sigríður Theodóra víkur af fundi.

 

8. Umræður um eineltismál.  Fram kom að eineltisstefna skólans sé reglulega tekin til umræðu á meðal starfsmanna.  Stefna Grunnskólans á Hellu er að ekki eitt einasta barn verði fyrir einelti. Fulltrúi foreldra minnti á mikilvægi þess að foreldrar geranda séu látnir vita ef þeir verða uppvísir að stríðni og öðru sem flokka má undir hugtakið einelti. Krakkar viti ekki alltaf hvað þeir séu að gera og geri sér ekki alltaf grein fyrir því hvað orð eða gerðir þeirra geti sært aðra.

 

9. Starfsmenn skólans fara í námsferð til Minneapolis 1. – 6. júní n.k. til að kynna sér skólastarf í þremur skólum á svæðinu. Þeir fá styrk frá stéttarfélögum sínum til ferðarinnar. Sveitarfélagið ber engan kostnað af þessari ferð.

 

10. Spurt var hvort það sé búið að koma upp aðstöðu fyrir útikennsluna. Svo er ekki, m.a. vegna kostnaðar. Nefndarmeðlimum finnst vanta meiri hefð fyrir sjálfboðastarfi í samfélagið okkar til að styðja við ýmis uppbyggileg verkefni s.s. að koma upp aðstöðu fyrir útikennslu.

 

11. Sigurgeir sagði frá því að hann hefði setið Menntaþing í Gunnarsholti 4. mars s.l. Þar talaði m.a. kennari í FSU um að bráðgerir grunnskólanemendur geti komið í FSU um áramót og útskrifast þá úr 10.bekk. Fram kom að skiptar skoðanir eru um ágæti slíks fyrirkomulags og margir á þeirri skoðun að heppilegra sé að bráðgerir nemendur taki áfanga framhaldsskólans innan vébanda grunnskólans og útskrifist með félögum sínum að vori. Það er mikilvægt að huga líka að félagsþroskanum í þessu sambandi en ekki aðeins námsárangri.

 

12. Umræða um áhrif þess að samræmd próf í 10. bekk fara nú fram að hausti en ekki vori. Hugsanlegt að metnaður nemendanna gagnvart þessum prófum sé minni nú þar sem þau hafa ekki áhrif á inngöngu þeirra í framhaldsskóla.

 

13. Nú er verið að undirbúa skólaferðalag 10.bekkjar á Norðurland 23. – 26. maí n.k.

 

14. Einn liður í þeim sparnaði sem hefur þurft að grípa til við rekstur skólans er að nú getur hvert aldursstig aðeins fengið að fara í eina rútuferð að hausti og aðra að vori á hverju skólaári.

 

15. Það hefur verið hluti af líffræðikennslunni í 6.bekk að bjóða þeim nemendum sem vilja að fara eina kennslustund að fylgjast með í Sláturhúsinu á Hellu. Skólaráð lýsir yfir efasemdum um námsgildi þessara ferða. Ráðið telur æskilegra að börnin fái að skoða innyfli í líffræðitíma í skólastofu. Sigurgeir ætlar að skoða þetta. 

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16:20

 

 

 

Go to top