9. fundur skólaráðs Grunnskólans á Hellu 30. janúar 2012 kl. 16

Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Ingibjörg Heiðarsdóttir fulltrúi kennara, Berglind Kristinsdóttir fulltrúi grenndarsamfélags, Guðbjörg Arnardóttir og Guðríður Tómasdóttir kjörnir fulltrúar foreldra, Darri Finnbogason og Silja Hjaltadóttir fulltrúar nemenda og Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.

Sigríður Theódóra Kristinsdóttir fulltrúi kennara og Lovísa Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna boðuðu forföll.

 

1. Sigurgeir byrjaði á að bjóða alla velkomna og baðst afsökunar á að hafa ekki haldið fund fyrr á skólaárinu. Hann fór síðan yfir dagskrá fundarins.

2. Sigurgeir fór yfir reglugerð um skólaráð http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=825314df-eadf-40ec-a41e-256e998ae0a4 og hverjir sitja í skólaráði.

3. Skólastjóri lagði til að skólaráð fundi a.m.k. fjórum sinnum á hverju skólaári þ.e. í fyrstu viku september, 1. viku desember, 1.viku mars og 1. viku júní.

4. Sigurgeir sagði að vinna við gerð einkunnarorða og merki skólans fari brátt í gang.

5. Félagsmál. Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar hefur félagsmiðstöðin verið rekin af Grunnskólanum á Hellu síðan 1. maí 2011en hún er einnig fyrir unglinga úr Laugalandsskóla. Að beiðni sveitarstjórnar vann Sigurgeir nýlega greinargerð um starf félagsmiðstöðvarinnar þar sem kom m.a. fram að hvorki hafa komið fram beiðnir frá nemendum né foreldrum varðandi aukna opnun félagsmiðstöðvarinnar. Framundan er að gera áætlun yfir starf félagsmiðstöðvarinnar. Unglingarnir voru hvattir til að koma fram með sínar hugmyndir varðandi starf hennar til Ólafs Arnar umsjónarkennara 10. bekkjar en hann stýrir starfinu. Darri og Silja segja að unglingar mæti illa á það sem er í boði á vegum skólans. Þau halda að mæting væri betri ef félagsstarfið færi fram annars staðar því það sé meiri tilbreyting að mæta annað en í skólann þar sem þau eru allan daginn og telja því galla að félagsmiðstöðin sé staðsett í skólanum. Það er hins vegar sá kostur að þegar félagsmiðstöðin er rekin undir skólanum gilda reglur skólans varðandi eftirfylgni mála sem upp koma.

6. Stór könnun á vegum Rannsóknar –og greiningar sem er lögð fyrir unglinga á tveggja ára fresti verður næst lögð fyrir í byrjun febrúar.  Þar er meðal annars spurt um líðan og neyslu á vímuefnum. Búast má við að sveitarfélagið þurfi að greiða sérstaklega fyrir niðurstöðurnar.

7. Fulltrúar foreldra sögðu að það væri mjög jákvætt hvað heimasíða skólans er lifandi en við þyrftum að vera duglegri við að koma á framfæri við fjölmiðla því sem vel er gert í skólanum.

8. Sigurgeir kynnti drög að reglum fyrir skólann varðandi útskrift bráðgerra nemenda eftir skemmri tíma en 10 ár en samkvæmt 25. gr. grunnskólalaga frá 2008 er það heimilt. Drögin verða lögð fyrir starfsmannafund 31. janúar 2012. Töluverð umræða skapaðist varðandi grunnskólanemendur sem útskrifast á skemmri tíma en 10 árum. Fulltrúar foreldra voru á því að unglingum lægi ekki á og skynsamlegra sé að taka áfanga frá framhaldsskóla á meðan þeir eru í  grunnskóla heldur en að hætta fyrr í grunnskólanum. Fulltrúar nemenda spurðu hvers vegna þeir sem útskrifast um áramót í 10. bekk fái ekki að taka þátt í skólaferðalagi 10.bekkjar eins og er í nágrannaskólunum. Sigurgeir upplýsti að um leið og nemandi hefur verið útskrifaður úr skólanum, sé öllum samskiptum hans við skólann sem nemanda lokið. Þá hætti skólareglur að gilda fyrir viðkomandi og  um leið öll boð kennara s.s. í félagsmálum og ferðalögum. Einnig má búast við að tryggingar skólans gildi ekki fyrir þá nemendur sem hafa verið útskrifaðir og þeir síðan verið skráðir í aðra skóla.

9. Sjálfsmatsskýrsla skólans fyrir skólaárið 2010-2011 er á heimasíðunni. Það á eftir að gera örlitlar lagfæringar á henni. Sigurgeir hvatti til þess að skýrslan verði kynnt á foreldrafundi og sagði að Birta Huld sem hefur stýrt sjálfsmatsvinnunni sé tilbúin til að koma á slíkan fund.

10. Umræður um húsnæðismál skólans. Sigurgeir upplýsti að ekki hafi tekist að bæta úr brýnni húsnæðisþörf skólans og að sveitarstjórn hefði ekki viljað stíga það skref að fá tvö færanleg límtréshús eins og rætt var á fundi skólaráðs 8. júní 2011. Hann upplýsti einnig að viðhaldsþættir innan skólans væru samkvæmt viðunandi áætlun og að síðastliðið sumar hafi verið endurnýjuð ein kennslustofa til viðbótar á barnaskólagangi og salernin á ganginum lagfærð. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 er reiknað með áframhaldandi lagfæringum í sumar á elsta hluta skólans.

11. Vinnueftirlitið kom fyrir áramót til að skoða vinnuaðstæður starfsfólks. Meðal athugasemda var að lagfæra þyrfti útblástur frá eðlisfræðistofu og heimilisfræðistofu. Það er verið að hefja þær lagfæringar.

12. Tölvubúnaður. Tölvubúnaður skólans hrundi í jólafríinu en hann er að mestu kominn í lag aftur. Fartölvurnar eru komnar tvö og hálft ár fram yfir áætlaðan líftíma fartölva. Það er í skoðun hvaða leið eigi að fara varðandi endurnýjun tölvubúnaðarins.

Hugmyndir eru í gangi um samstarf skólans, íþróttahúss, leikskóla og skrifstofu sveitarfélagsins um rekstur grunnbúnaðar fyrir tölvukerfi stofnananna.

 

13. Nokkur umræða varð um mötuneytismál skólans.  Sigurgeir sagði frá því að Leikskólinn Heklukot fái ekki lengur mat frá mötuneyti skólans heldur kaupi mat frá Lundi og sé mikil ánægja með það meðal starfsfólks og foreldra leikskólabarnanna.

14. Móttökuáætlun vegna nýrra nemenda við skólann var kynnt. Hún verður fljótlega birt á heimasíðu skólans. 

15. Berglind spurði hvort hægt væri að koma á hugmyndasamkeppni fyrir nafn á skóladagheimilið. Fulltrúar ráðsins leggja til að byrjað verði á að halda hugmyndasamkeppni meðal barnanna sem nýta skóladagheimilið.

16. Guðbjörg óskaði eftir að fyrr verði farið í vinnu varðandi skólasamfellu en var gert fyrir þetta skólaár. Hún sagði mikilvægt að það liggi tímanlega fyrir hver sinni hverju og hvað verði í boði. Þannig megi komi í veg fyrir óþarfa pirring. Sigurgeir hvatti til þess að fólk komi fram með hugmyndir að viðfangsefnum í tómstundum barna- og unglinga.  Guðbjörg sagðist vera tilbúin til að vera með námskeið eina önn en hún ætti erfitt með að festa sig í hverri viku allt skólaárið. 

17. Næsti fundur er áætlaður í fyrstu viku mars 2012.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:25

Go to top