10. fundur skólaráðs Grunnskólans á Hellu 23. apríl 2012 kl. 15

Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Ingibjörg Heiðarsdóttir og Sigríður Theódóra Kristinsdóttir fulltrúar kennara, Lovísa Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna, Guðbjörg Arnardóttir og Guðríður Tómasdóttir kjörnir fulltrúar foreldra, Darri Finnbogason og Helga Rún Emilsdóttir fulltrúar nemenda og Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.
Berglind Kristinsdóttir fulltrúi grenndarsamfélags boðaði forföll.

1. Fundargerð síðasta fundar lesin.


2. Guðríður spurði hvers vegna það væru tveir fulltrúar nemenda úr 10. bekk á fundinum en enginn úr 9. bekk þar sem m.a. væri fjallað um málefni næsta vetrar þegar núverandi 10. bekkingar verði farnir úr skólanum. Sigurgeir sagði að það væri ekki sérstök ástæða fyrir þessu. Hann þakkaði fyrir ábendinguna og sagði að þessu yrði breytt fyrir næsta fund.

 

3. Félagslíf unglinga. Það hefur verið betri mæting á kvöldin undanfarið en var fyrr í vetur. 7. bekk hefur verið boðið að mæta á einstaka viðburð. Krakkarnir telja æskilegra að hafa félagsmiðstöðina í sér húsi. Sigurgeir tekur undir sjónarmið þeirra en það hefur ekki fengist hljómgrunnur fyrir því hjá sveitarstjórn vegna kostnaðar við það. Flest stóru tækin sem voru í félagsmiðstöðinni eru í geymslu vegna þess að ekki er húsrúm fyrir þau í skólanum. Þó kom borðtennisborð hingað sem er í setustofu nemenda. Er mjög góð reynsla af því.


4. Skólaferðalag 10. bekkjar verður 20.-23. maí. Þau munu gista í Vestmannaeyjum, á Minni-Borg í Grímsnesi og í Hafnarfirði. Meðal þess sem verður gert er að fara í flúðasiglingu í Hvítá, út að borða, í bíó og Bláa lónið.

 

5. Skóladagatal 2012-2013. Það er búið að fara yfir það á tveimur starfsmannafundum. Sigurgeir fór yfir helstu þætti þess. Meðal þess sem þar kemur fram er að skólasetning er áætluð 31. ágúst og skólaslit 28. maí. Aukadagar sem koma fram á dagatalinu eru dagar sem taldir eru sem nemendadagar og koma á móti vinnu við hátíðir að kvöldi vegna þess að ekki er hægt að borga starfsmönnum yfirvinnu fyrir þær. Annars yrðu jólaskemmtunin og vorhátíðin að vera á miðjum degi. Skólaárið verður 170 dagar skv. samþykkt sveitarstjórnar og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir núverandi skólaár og næsta þ.e. 2012-2013. Engar umkvartanir hafa borist til skólans né fræðslunefndar vegna styttingarinnar enda eru nemendur að fá lögbundið kennslustundamagn með viðbótarkennslustundum í hverri viku og kennarar vinna styttinguna af sér. Sigurgeir hefur sent útreikningana á styttingunni nokkuð víða. Enginn hefur fundið neitt að þeim en ýmsir öfunda okkur af þessari leið.

Skólaráð samþykkir skóladagatalið fyrir sitt leyti.

6. Stefna skólans í lestrarkennslu. Hafdís fór yfir helstu þætti varðandi hana.  Meðal þess sem kom fram í máli hennar er að mikil áhersla er lögð á lestrarkennslu og lestrarþjálfun því eins og flestir vita er lestur undirstaða alls náms. Á heimasíðu skólans undir:

http://grhella.is/index.php?option=com_content&view=article&id=219&Itemid=79 má sjá stefnuna í heild sinni. Þar má líka líka sjá krækjur inn á niðurstöður úr könnunum, sem lagðar voru fyrir í febrúar, annars vegar fyrir foreldra og hins vegar fyrir nemendur varðandi viðhorf til lesturs. Meðal þess sem þar kemur fram er að hátt í 90% foreldra álítur daglegar lestrarstundir mikilvægar. Slíkar stundir eru hjá nemendum alla daga. Yfirleitt að morgni hjá 1. -5. bekk en síðustu 20 mínúturnar fyrir mat hjá 6. – 10. bekk alla daga nema föstudaga. Stór hluti nemenda á yngsta og miðstigi er jákvæður gagnvart lestri. Þeim finnst gaman að lesa og líður vel í lestrarstund. Hins vegar er nokkuð stór hluti nemenda unglingastigsins neikvæður gagnvart lestrarstundum. Var rætt  á fundinum hvað gæti valdið. Fulltrúar nemenda sögðust vera orðnir svangir á þessum tíma og því nenni þeir ekki að lesa. Þetta er samt sami tími og hjá nemendum 6. og 7. bekkjar og þau sökkva sér í bækurnar á sama tíma. Margir á miðstigi eru svo áhugasamir að þeir vilja jafnvel drífa verkefnin af og og spyrja kennarana: Ef ég klára þetta má ég þá fara að lesa?

Guðbjörg hrósaði og þakkaði fyrir lestrarátök sem væru vonandi komin til að vera því þau hefðu jákvæð áhrif á lestrarfærni nemenda. Hún sagði það skipta gríðarlega miklu að vera sjálfbjarga með að lesa námsbækurnar.

7. Íþróttasamfellan. Það sem að grunnskólanum snýr er 1.-4. bekkur. Það er hvorki búið að fela skólanum að sjá um samfelluna næsta vetur né ekki. Skólinn hefur ekkert með samfellu eldri bekkja að gera. Sigurgeir sagði að best væri að sveitarfélagið myndi keyra þetta í samráði við íþróttafélögin.

Það kom fram ánægja með samfelluna í 1.-4. bekk á fundinum en jafnframt miklar áhyggjur varðandi tómstundir þeirra eldri. Sérstaklega barna á miðstigi. Verðandi 5. bekkur er mjög áhugasamur um íþróttir. Það er mjög slæmt ef þau munu ekki geta farið á æfingar strax eftir skóla næsta skólaár.

Guðbjörg sagðist sjá samfellu fyrir sér þannig að börn geti fariðí íþrótta- og tómstundastarf beint eftir skóla. Sem íbúi í dreifbýlinu sagðist hún ekki sjá ofsjónum yfir að sækja börnin ef akstur kl. 16 eða 17 væri ekki á dagskrá. Það myndi muna miklu að þurfa bara sækja og jafnvel passi fyrir marga að taka börnin með sér heim um leið og vinnudegi lýkur ef tómstundastarfið er frá kl 15 -17. Það sé mjög óhentug fyrir marga að þurfa að keyra börnin síðdegis eða að kvöldi á æfingar og sækja þau síðan aftur. Þetta getur valdið því að börn flosni frá íþrótta- og tómstundastarfi, sem er óheillavænlegt, því þátttaka í slíku starfi er ein besta forvörn sem hægt er að bjóða upp á.

Það stendur til að senda skoðanakönnun í vor til foreldra vegna samfellunnar.

 

8. Skíðaferðir. Unglingastigið fór 20. mars og fékk ekki nógu gott veður. Miðstigið fór 18. apríl og fékk dásamlegt veður. Nemendur stóðu sig mjög vel í ferðunum og allir komu heilir heim.

 

9. Guðbjörg er í litla forvarnarhópnum. Hún sagði að þar hafi komið fram áhyggjur af litlum áhuga unglinga á íþrótta- og tómstundastarfi.  Hugmyndir eru uppi um að búa til smiðjur þar sem fólkið í samfélaginu verði virkjað. Fundarmönnum leist vel á hugmyndirnar en voru samt sammála um að ekki megi vera of mikið í boði. Foreldrar verði líka að hafa tækifæri til að verja tíma með börnunum sínum.

 

10. Innra mat. Vinna við það er í fullum gangi. Kannanirnar um viðhorf til lesturs eru hluti af innra matinu. Meðal þess sem stendur til að gera er að finna einkunnarorð og láta hanna merki skólans. Fundarmenn sammála um klysjuorð séu orðin mjög þreytt og að einkunnarorð verði að vera eitthvað sem skólinn standi fyrir. Jafnvel þurfi ekki slík orð heldur bara vel hannað merki. Guðbjörg sagði að hátíðirnar, jólahátíð og vorhátíð, væru meðal einkenna á skólanum og hann ætti skilið mikið hrós fyrir þær. Þarna fái nemendur mjög dýrmæt tækifæri til koma fram sem styrki sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra. Það hafi greinilega sýnt sig að margir búi að þeirri reynslu sem þeir fái við að koma fram því ýmsir fyrrverandi nemendur Grunnskólans á Hellu hafa verið leiðandi í félagsstörfum Fsu og ML.

 

11. Mötuneytismál. Sveitarstjórn fól Sigurgeiri og Sigurjóni skólastjóra Laugalandsskóla að koma með tillögur varðandi fyrirkomulag á mötuneytum skólanna. Þeir lögðu til að eldað verði á Laugalandi næsta vetur og maturinn keyrður á Hellu. Þeir hafa ekki fengið svör við tillögunni. Matráðurinn í okkar mötuneyti byrjaði í nýju starfi um síðustu mánaðamót. Aðstoðarmatráðarnir tóku að sér að sjá um mötuneytið til vors. Skólastjórinn þarf að fá úr því skorið frá sveitarstjórninni sem fyrst hvaða fyrirkomulag eigi að vera á mötuneytinu næsta vetur.

 

12. Helstu þættir skólastarfsins í maí. Vorhátíðin verður 3. maí kl. 18. 15. maí verður útivistardagur. Þá verður farið í Melaskóg um hádegi og grillaðar pylsur. Foreldrum og forráðamönnum verður boðið til að skoða svæðið og fá sér pylsu. Próf verða fram undir skólaslit sem verða föstudaginn 25. maí.

 

13. Umhverfis- og útivistarkennsla. Trjáplöntun er hluti af þeirri kennslu bæði í Melaskógi og í móanum þar sem útikennslusvæðið er. Þar voru skemmd 9 eplatré í vetur sem voru gjöf frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Sigurgeir spurði hvað fundarmönnum finnist um að móinn þar sem útikennslusvæðið er verði tekinn undir byggingarlóðir en hann hefur heyrt vangaveltur þess efnis. Fundarmenn eru alfarið á móti hugmyndunum. Þeir vilja að hlúð verði að þessu svæði, jafnvel gerð tjörn og þetta verði fest í sessi sem útikennslusvæði skólans og útisvæði þorpsins. Það skiptir miklu máli að skólinn eigi ákveðinn útikennslustað þó börnin fari víðar í útikennslunni.

Fundarmenn vilja endilega hjálpa til við framkvæmdir á útikennslusvæðinu.

 

Önnur mál

Guðríður bað um að fundir skólaráðs verði frekar haldnir kl. 16. Sigurgeir ætlar að taka það til greina.                  
                        Næsti fundur áætlaður í fyrstu viku júnímánaðar.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16:25

Go to top