11. fundur skólaráðs Grunnskólans á Hellu 25. október 2012 kl. 16

Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Hildur Þorkelsdóttir og Kristín Sigfúsdóttir fulltrúar kennara, Lovísa Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna, Guðbjörg Arnardóttir og Guðríður Tómasdóttir kjörnir fulltrúar foreldra, Berglind Kristinsdóttir fulltrúi grenndar­samfélags, Dagný Sif Ómarsdóttir úr 9. bekk og Hafrún Hlín Sigfúsdóttir úr 10. bekk fulltrúar nemenda og Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.

1. Skólastjóri dreifði dagskrá og bauð alla velkomna, sérstaklega fulltrúa nemenda. Hann sagði stúlkunum að þeim væri velkomið að sitja allan fundinn en þær mættu líka fara þegar búið yrði að ræða málefni nemenda.

2. Málefni nemenda. Fulltrúar nemenda sögðu að staðan í félagsmálum unglinga væri góð og samskipti við nemendur Laugalands- og Hvolsskóla gengju vel. Nemendur 8. bekkja hafa góð tækifæri til að kynnast á tveggja daga fermingarbarnamóti í Vatnaskógi sem þau fara í á haustin. Berglind spurði fulltrúa nemenda hvort þeir teldu að jafnöldrum þeirra þætti almennt spennandi að fara á böll þar sem 14 ára mega mæta og eru ekki haldin á vegum skólanna. Þær sögðu að það væri misjafnt, sumum fyndist það spennandi en almennt væru krakkarnir ekki mikið að mæta á slíkar samkomur. Nokkur umræða spannst um uppákomur af þessu tagi. Skólinn auglýsir engar almennar samkomur en getur ekki skipt sér af því ef foreldrar leyfa börnum sínum að fara. Dæmi eru um að foreldrar fari með börnum sínum á slík böll. Gott væri að taka umræðu um samkomur af þessu tagi hjá litla forvarnarhópnum. Það er mjög löng hefð fyrir því að halda 3 sameiginlegar skemmtanir á hverju skólaári fyrir unglinga úr skólunum þremur í Rangárvallasýslu. Fyrir nokkrum árum var fjórðu samkomunni bætt við. Það er svokallað haustball og var upphafið að því að stuðla að forvörnum með því að halda flotta hátíð með hljómsveit þar sem unglingum úr grunnskólunum í Vestur- Skaftafellssýslu er einnig boðið.
     Unglingastigið fór í tveggja daga haustferð í Þórsmörk í lok september sem gekk mjög vel. og var mjög skemmtileg að sögn nemenda. Skólinn fékk gagnrýni fyrir það að hafa farið rétt fyrir mánaðarmót. Það var búið að láta vita með góðum fyrirvara að ferðin væri í deiglunni. Vegna samræmdra prófa er erfitt að fara fyrr en eftir 20. september en samt þarf að reyna að fara sem fyrst að haustinu til að auka líkurnar á að fá gott veður. Þess vegna er helst ekki beðið með haustferð fram í byrjun október.
     Sigurgeir spurði hvernig nemendum finnist fyrirkomulagið á félagsmiðstöðinni. Þ.e. að hafa uppákomur á vegum hennar eitt kvöld hálfsmánaðarlega í skólanum á móti uppákomum í skólanum. Nemendum finnst að það þurfi að finna annað húsnæði en skólann sem félagsmiðstöð. Berglind benti á að ólíklegt sé að nemandi, sem líður ekki vel í skólanum mæti í félagsmiðstöðina ef hún er staðsett í skólanum eða kennari starfi við hana sem nemandi á ekki góð samskipti við. Það þurfa ekki að vera kennarar sem starfa við félagsmiðstöðina þó hún sé staðsett í skólanum. Það væri t.d. æskilegt að fá utanaðkomandi fólk til að vera með klúbbastarf en það hefur ekki tekist fram að þessu að fá fólk. Kosturinn við að hafa félagsmiðstöðina innan skóla er að hægt er að láta skólareglur líka gilda fyrir það sem er á vegum hennar.
     Kennarar miðstigs, undir stjórn Særúnar Sæmundsdóttur, eru að fara af stað með félagsmiðstöðvarverkefni í skólanum síðdegis. Fyrst verða bara nemendur héðan en svo verður nemendum frá Laugalandi boðið.
     Umræða um fyrirkomulag á íþróttahátíðum skólanna þriggja. Á fundi skólastjórnenda í síðustu viku var rætt um mikilvægi drengilegrar keppni þar sem allir bæði utan vallar sem innan komi fram af háttvísi og heiðarleika. Það er búið að semja nýjar reglur varðandi íþróttahátíðina og þarf að semja nýjar reglur fyrir ræðukeppnina.
     Það er mikil ánægja er með mötuneytið meðal nemenda.

Fulltrúar nemenda yfirgáfu fundinn kl. 16:30.

3. Sigurgeir fór lauslega yfir hlutverk skólaráðs. Samkvæmt 8. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 er hlutverk þess meðal annars að taka þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans.

4. Ferðalög nemenda. Það er reynt að fara ekki mikið út fyrir sýsluna. Það kemur sér mjög vel þegar foreldrafélagið styrkir ferðirnar.

5. Þróun útikennslu og grænfánaverkefni. Grænfánanefndin bauð sveitarstjórninni á fund í síðustu viku. Var farið á útikennslusvæðið þar sem er verið að rækta ávaxtatré og byggja skýli. Sveitarstjórnin fékk afhent bréf þar sem beðið er um svör varðandi framtíðarskipulag svæðisins.

6. Húsnæðismál skólans. Stofa nr. 9 var tekin í gegn í sumar. Nú eru allar stóru stofurnar á barnaskólaganginum nýuppgerðar. Arkitekt skólans og Bjarni Matthíasson voru á fundi með Sigurgeiri í gær. Það var talað um að ljúka við lagfæringar á gamla skólanum á næsta ári. Hugmynd er um að snyrtingarnar verði færðar þangað sem litla lesverið. Einnig að brjóta veggi í stofu 10 og gera nýja stofu þar. Það þarf að taka allan ganginn í gegn. Ekki liggur fyrir nú hversu stór hluti af þessu verður framkvæmdur í einu.
Það er verið að setja háfa yfir eldavélarnar í heimilisfræðistofunni og búið að setja útblástur á efnageymslu skólans.

7. Kennslutæki/búnaður. Tölvubúnaður skólans er alveg genginn úr sér. Sigurgeir er búinn að láta fulltrúa í sveitarstjórn vita að ef ekki verða úrbætur þar á muni hann senda yfirlýsingu til foreldra um að hætt verði að kenna á tölvur í skólanum. Það er verið að spá í að setja nokkrar fartölvur inn í tvær stofur sem yrði kveikt á að morgni og slökkt í lok dags því það gengur svo hægt að ræsa tölvurnar úti í stofunum fyrir eina og eina kennslustund.
     Á síðasta ári var borgað 1,7 mílljónir fyrir microsoftleyfi og þjónustu fyrirtækisins sem sér um viðhald á tölvukerfinu.
     Fljótlega verður settur á stofn vinnuhópur starfsmanna til að skoða tölvumál skólans til framtíðar. Meðal þess sem þarf að taka afstöðu til er hvort skólinn eigi að kaupa spjaldtölvur.

8. Lovísa sagði að það væri búið að vera áberandi ljúft og rólegt andrúmsloft á göngunum það sem af er skólaárinu. Á þemadögunum, sem voru í vikunni, var tónlist spiluð lágt á göngunum. Það mæltist mjög vel fyrir. Spurning hvort hægt væri að fá hátalara á gangana þar sem væri spiluð róleg tónlist í frímínútum sem væri stýrt af starfsfólki. T.d. gæti mismunandi tónlist verið kynnt í hverjum mánuði.

 

Sigurgeir bað fulltrúa í skólaráði að fara yfir skólanámskrána fyrir næsta fund.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:05

Go to top