12. fundur skólaráðs Grunnskólans á Hellu 7. mars 2013 kl. 16

Mætt voru: Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri, Hildur Þorkelsdóttir og Kristín Sigfúsdóttir fulltrúar kennara, Lovísa Sigurðardóttir fulltrúi annarra starfsmanna, Guðbjörg Arnardóttir og Guðríður Tómasdóttir kjörnir fulltrúar foreldra, Berglind Kristinsdóttir fulltrúi grenndar­samfélags, Dagný Sif Ómarsdóttir og Eyþór Máni Steinarsson, nemendur 9. bekkjar, fulltrúar nemenda og Hafdís Garðarsdóttir deildarstjóri sem ritaði fundargerð.

1. Skólastjóri dreifði dagskrá og bauð alla velkomna, sérstaklega fulltrúa nemenda. Hann sagði nemendunum að þeim væri velkomið að sitja allan fundinn en þeir mættu líka fara þegar búið yrði að ræða málefni nemenda.

2. Málefni nemenda. Sigurgeir sagði að unglingadeildin sé óvenju fámenn í skólanum í vetur sem hafi áhrif á félagslífið. Fulltrúar nemenda tóku undir að það hafi auðvitað áhrif hversu fáir nemendur eru á unglingastigi en sögðu að krakkarnir séu samt almennt ánægðir með það sem um er að vera og mæti nokkuð vel á það sem í boði er. Unglingum í Laugalandsskóla er boðið að koma þegar eitthvað er um að vera á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Það koma samt yfirleitt fáir þaðan. Unglingar úr báðum skólunum fóru saman til Reykjavíkur 1. mars á Samféshátíð, sem er sameiginleg hátíð allra félagsmiðstöðva á landinu, og er haldin í Laugardalshöllinni einu sinni á ári. Gekk ferðin vel í alla staði. Bílstjórinn sem keyrði rútuna hringdi í Sigurgeir til að hrósa krökkunum. Hann sagði að þetta væri einn besti hópurinn sem hann hefur ferðast með. Honum fannst ástæða til að láta það heyrast því það sé allt of mikið um að verið sé að kvarta undan unglingum en hópurinn hafi verið algerlega til fyrirmyndar bæði hvað varðar umgengni um rútuna og hegðun. Fundarmenn töldu mjög ánægjulegt að bílstjórinn hafi séð ástæðu til að hringja og hrósa unglingunum. Guðbjörg sagði að í árlegum haustferðum í Vatnaskóg með fermingarbörn fái hópurinn úr Rangárvallasýslu alltaf mikið hrós fyrir kurteisi og góða hegðun.

Ræðu- söng- og spurningakeppni grunnskólanna í Rangárvallasýslu var haldin í íþróttahúsinu á Hellu 7. febrúar s.l. Allir keppendur stóðu sig mjög vel og var keppnin jöfn og spennandi í öllum þremur greinunum. Úrslit voru þau að okkar keppendur sigruðu í spurningakeppninni og söngkeppninni en keppendur Laugalandsskóla í ræðukeppninni.

Árshátíð unglinganna verður á Laugalandi 21. mars. Það verður fljótlega haldinn fundur þar með fulltrúum nemenda og kennara skólanna þriggja sem standa að árshátíðinni til að ræða fyrirkomulag hennar.

Mikil ánægja er með borðtennisborðið í holinu og er það mjög mikið notað. Það stendur til að gera tilraun með að setja annað borðtennisborð á ganginn svo fleiri komist að til að spila.
Lovísa hrósaði nemendum fyrir góða hegðun á göngum skólans.

Skólaráð fagnar því sem kemur fram í 8. lið 44. fundargerðar hreppsnefndar RY frá 1. mars s.l. en þar segir: Hreppsnefnd feli sveitarstjóra að ganga frá leigusamningi um húsnæði fyrir starfsemi félagsmiðstöðvar sem í boði er í Suðurlandsvegi 3 og að starfsemi verði komið af stað eins fljótt og við verður komið. Að mati skólaráðs hefði félagsmiðstöðin þurft að komast í annað húsnæði fyrir löngu því skólinn hefur ekkert rými aflögu fyrir félagsmiðstöðina.

 

3. Starfskynningar á unglingastigi. Það hafa aðeins komið fram umkvartanir vegna þeirra. Foreldrar vilja vera með í ráðum og fá að vita með góðum fyrirvara hvert börnin fara þannig að það sé tækifæri til að breyta ef þörf er á. Skólastjóri segir að starfskynningarnar verði ekki oftar með því sniði sem þær hafa verið undanfarin ár. Hér eftir fari hver nemandi bara einu sinni í starfskynningu í 3-4 daga (hafa farið í 4 daga í heimabyggð í 9. bekk og 3 daga til Reykjavíkur í 10. bekk) . Áhersla verði á að nemendur fari í starfskynningu í heimabyggð en ef krakkarnir vilji fá að fara í fyrirtæki á Selfossi eða í Reykjavík verði það að vera í fullu samráði við foreldra og á ábyrgð þeirra. Fundarmenn sammála um að starfskynningar séu af hinu góða, ef krakkarnir komast að hjá fyrirtækjum sem geta tekið vel á móti þeim, þannig að þær skilji eitthvað eftir sig hjá nemendum.

Berglind lagði til að hver nemandi verði látinn svara áhugasviðskönnun fyrir starfs­kynninguna og út frá því verði valdir staðir, sem henta, í samráði við foreldra. Hún taldi jafnvel möguleika á að fá gögn vegna áhugasviðskönnunar frá námsráðgjafa Fræðslunetsins.

 

4. Erindi frá Landvernd. Fulltrúi frá Landvernd hafði samband við Grunnskólann á Hellu, Hvols­skóla og Þjórsárskóla vegna samvinnuverkefnis um endurheimt landsgæða og upp­græðslu. Upphafið að þessu er að Landvernd fékk arf sem er eyrnamerktur kennslu unglinga. Við erum búin að samþykkja þátttöku og fulltrúar skólans búnir að fara á einn fund vegna verkefnisins. Þetta er í allt í mótun en jafnvel er stefnt á námsefnisgerð í tengslum við verkefnið.

 

5. Húsnæðismál skólans. Það vantar tilfinnanlega lítinn sal með sviði, skiptistofur og mötuneyti sem er innangengt í. Það skortir fjármagn en ekki vilja til slíkra framkvæmda. Á borgarafundi sem haldinn var í janúar s.l. í íþróttahúsinu á Hellu kom fram að á fjárhags­áætlun þessa árs eru áætlaðar 20 milljónir til framkvæmda við Grunnskólann á Hellu. Sama upphæð er áætluð til framkvæmda árið 2014. Það stendur til að nýta þessa fjármuni til að halda áfram með endurnýjun á elsta hluta skólans. Sigurgeir sýndi nýjar teikningar, sem sýna tillögur að áframhaldandi endurbótum á barnaskólaálmunni. Tillögurnar fela m.a. í sér stækkun á inngangi og breytingu á salernum. Það er áætlað að fara í þær framkvæmdir í sumar en næsta sumar er stefnt á að taka stofu nr. 10 og sérkennslu­verið í gegn. Ræddar ýmsar hugmyndir varðandi breytingar á húsnæðinu m.a. hvort möguleiki sé á að gera gang úr barnaskólanum yfir í íþróttahúsið þannig að innangengt verði á milli húsa. Ekki þykir æskilegt að loka sundinu á milli skólans og íþróttahússins svo því var velt upp hvort gangurinn gæti verið neðanjarðar eða að byggður yrði göngurarampur yfir sundið.

 

7. Starfsmannamál. Sigurlína kemur ekki meira á þessu skólaári en stefnir á að mæta hress næsta haust. Tvær kennslukonur fara í fæðingarorlof áður en skólaárinu lýkur. Það er búið að fá kennara til að taka við af þeim. Starfsmannaviðtöl hefjast í næstu viku.

 

8. Tölvumál skólans. Hluti starfsmanna er í vinnuhópi sem hefur verið að skoða ýmsa möguleika varðandi framtíðarstefnu í tölvumálum skólans. M.a. hefur hópurinn fengið kynningu á spjaldtölvun frá TRS og epli.is. Báðir aðilar mæla með spjaldtölvum í skólum ásamt fartölvum/borðtölvum en ekki er talið skynsamlegt að vera eingöngu með spjaldtölvur.

 

9. Skóladagatal 2013-2014. Skólastjóri kynnti fyrstu drög. Hann var með tvær tillögur. Annars vegar að 180 daga skólaári og hins vegar 170 daga skólaári. Töluverðar umræður sköpuðust um reynsluna, undanfarin tvö ár, af því að hafa 170 daga skólaár. Fulltrúar nemenda sögðust vera mjög sáttir við styttinguna. Það eru skiptar skoðanir meðal kennara um styttinguna. Hluti af kennurum yngri nemenda finnst þeir finna fyrir meira álagi því kennarar í fullu starfi þurfa að kenna sem nemur einni og hálfri kennslustund meira í hverri viku. Niðurstöður könnunar meðal foreldra, sem lögð var fyrir rafrænt, sýna að hátt í 90% foreldra eru samþykkir því að að hafa 170 daga skólaár áfram. Foreldrum barna sem hófu grunnskólagönguna í haust fannst vanta úrræði fyrir þau þegar skólinn byrjaði svona seint. Þau fengu ekki að taka þátt í tómstundastarfi á vegum Ungmennafélagsins og skóladag­heimilið var lokað. Sveitarstjórnaryfirvöld eru hlynnt 170 daga skólatali vegna sparnaðarins sem af því hlýst. Líklegt er að ef af styttingu skólaársins verði, þá muni koma fram krafa, frá foreldrum yngstu nemendanna, um að skóladagheimilið verði haft opið þá daga sem skólaárið styttist. Það er ekki vitað nákvæmlega hversu mikið hefur sparast með styttingu skólaársins. Erfitt er að sýna fram á tölur því verðlag hefur breyst svo mikið. Viðbúið er að mestur sparnaður hafi náðst vegna minni skólaaksturs.

Sigurgeir las niðurlag bréfs frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsettu 6. febrúar 2013 þar sem kemur fram að ráðuneytið setur sig ekki upp á móti 170 daga skólaári svo fremi að nemendur fái lögbundinn kennslustundafjölda yfir skólaárið og skóladagatalið fái umræðu í skólaráði, fræðslunefnd og viðhorf foreldra séu könnuð á opnum fundum eða með rafrænni könnun. Fulltrúar foreldra í skólaráði lögðu áherslu á að styttingin megi ekki koma niður á börnunum, gæðum skólastarfsins eða óhóflegu álagi á kennara.

Eftir að hafa rætt málin töluvert samþykkti skólaráð, fyrir sitt leyti, að skólaárið 2013-2014 verði 170 dagar þar sem nemendur fá lögbundið kennslustundamagn í hverri viku. Það verður valkvætt, eins og verið hefur, meðal kennara að vinna önnur störf þessa 10 daga sem skólaárið styttist.

 

Önnur mál

Sigurgeir var spurður hvort gerð séu sameiginleg innkaup meðal stofnanna sveitarfélagsins til að ná fram hagræðingu. Hann upplýsti að svo væri ekki. Fundarmenn furða sig á því að það skuli ekki gert. Sigurgeir sagði að hagræðing af slíku væri hugsanlega ekki svo mikil og hver stofnun hefur sína sérstöðu. Hann nefndi sem dæmi að innkaup einstakra stofnana taka oft mið af sérstökum verkefnum og stefnum s.s. grænfánaverkefni o.fl. Hann benti einnig á að sameiginleg innkaup kalli á talsvert mikið utanumhald.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:36

 

 

 

 

Go to top