___________________________________

Einelti - eyðublað til útprentunar

Tilkynning um atvik sem er mögulega einelti

_____________________________________

Eineltisáætlun

 Stefnuyfirlýsing Grunnskólans á Hellu

Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið í Grunnskólanum á Hellu. Áhersla er lögð á jákvæðan og lýðræðislegan skólabrag þar sem jafnrétti og virðing fyrir öðrum er haft að leiðarljósi.

Skilgreining Grunnskólans á Hellu á einelti.

Einelti er síendurtekið andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum einstaklingi. Einelti er mjög neikvætt og meiðandi fyrirbæri. Sá sem verður fyrir einelti fyllist ótta og uppgjöf og er ekki fær um að verja sig eða rísa undir álaginu.


Einelti getur birst í einni eða fleiri af eftirtöldum myndum:

Líkamlegt:  Barsmíðar, spörk, hrindingar eða meiðingar af öðru tagi.

Andlegt: Útilokun úr félagahópnum, svipbrigði og látbragð sem láta í ljós vanþóknun, flissað og hlegið að þolanda.

Munnlegt:  Hótað, uppnefnt, strítt, niðrandi athugasemdir; munnlegar eða skriflegar, hvíslast á um þolandann, söguburður og lygar.

Félagslegt: Barnið er skilið útundan í leikjum, því er ekki boðið í afmælisveislur eða aðrar uppákomur hjá bekkjarfélögum. Bekkjarfélagar mæta ekki í afmæli hjá barninu. Barnið er hundsað og  verður fyrir útskúfun.

Efnislegt: Eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar.


Aðgerðateymi

Aðgerðateymi hefur umsjón með og sinnir faglegri forystu í eineltismálum innan skólans. Meðal hlutverka teymisins er að sjá til þess að upplýsingaflæði, innan skólans og milli skóla og heimilis, sé skilvirkt ef grunur leikur á að um einelti sé að ræða.  Í aðgerðateymi eru:

Skólastjóri

Deildarstjóri

2 kennarar

Aðrir starfsmenn eru kallaðir inn í teymið eftir þörfum.


Fyrirbyggjandi aðgerðir:

 • Stuðla að góðri samvinnu heimilis og skóla, frá upphafi skólagöngu.
 • Veita foreldrum, kennurum og öðru starfsfólki reglulega fræðslu um einelti. 
 • Fræða nemendur um einelti og að það líðist hvorki í skólanum né annars staðar. 
 • Aðstoðarmenn úr hópi bekkjarfélaga fengnir fyrir nýja nemendur.
 • Umsjónarkennarar semja skriflegar bekkjarreglur í samvinnu við nemendur, sem hafna ofbeldi og einelti. Líta ber á reglurnar sem samning milli nemenda. 
 • Umsjónarkennari sé meðvitaður um innbyrðis tengsl í bekknum og leitist við að efla jákvæðan félagsanda m.a. með því að halda reglulega bekkjarfundi og að ræða við nemendur um líðan, samskipti og hegðun.  
 • Áhersla er lögð á góða bekkjarstjórnun, reglusemi og öguð vinnubrögð.
 • Samstarf haft milli bekkja/nemenda á hverju stigi fyrir sig þar sem unnið er á jafningjagrunni.
 • Skólayfirvöld leitast við að gæta þess að gæsla sé góð í frímínútum, á göngum, á skólalóð, í  skólaferðalögum, búningsklefum og sturtum í íþróttahúsi. 
 • Reglulega lagðar fyrir kannanir þar sem spurt er um samskipti.
 • Árlegur forvarnardagur gegn einelti.
 • Eineltisáætlun skólans endurskoðuð reglulega.

 

Á einelti sér stað?

Hugsanlegt er að einelti eigi sér stað ef barn:

 • Vill ekki fara í skólann, alltaf, stundum, tímabundið.
 • Hræðist að fara eitt í eða úr skóla. 
 • Kvartar undan vanlíðan á morgnana og í skólanum s.s. um höfuðverk og magaverk. 
 • Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka. 
 • Fer að koma heim með rifin föt og námsbækur. 
 • Byrjar að stama, missir sjálfstraustið. 
 • Leikur sér ekki við önnur börn. 
 • Neitar að segja hvað amar að.
 • Kemur heim með marbletti eða skrámur sem það getur ekki skýrt. 
 • Verður árásargjarnt og erfitt viðureignar.
 • Kemur heim í öllum hléum í skólanum. 
 • Vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum. 
 • Forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. íþróttir, sund.
Úrræði

Ef foreldra/forráðamenn grunar að barn þeirra verði fyrir einelti skulu þeir þegar í stað hafa samband við skólann.
Ef starfsmann skólans grunar að nemandi sé lagður í einelti, ber honum að láta umsjónarkennara vita, þannig að hægt sé að taka á málum.
Eineltismál eru ólík og því verður að miða viðbrögð við hvert einstakt tilfelli. Þegar grunsemdir vakna um einelti fer af stað ákveðið vinnuferli. Þessu vinnuferli má skipta í könnunarferli og aðgerðaferli.

Könnunarferli:

 • Umsjónarkennari gerir foreldrum/forráðamönnum viðvart (ef ábending kemur ekki þaðan) og biður þá að fylgjast með líðan barnsins í tiltekinn tíma.
 • Umsjónarkennari aflar upplýsinga frá kennurum, starfsfólki skólans, foreldrum og nemendum.
 • Umsjónarkennari heldur fund með kennurum og starfsmönnum sem annast viðkomandi nemanda. Þeir fylgjast með þolanda og geranda í ákveðinn tíma og halda skrá yfir það sem þeir verða varir við.
 • Umsjónarkennari leggur fyrir tengslakönnun í bekknum.

 

Ef grunur um einelti reynist á rökum reistur þá fer aðgerðaferli í gang.


Aðgerðaferli:

 • Umsjónarkennari leggur upplýsingar sem hann hefur aflað fyrir aðgerðateymi skólans. Ef álitið er að um einelti sé að ræða kemur til frekari framkvæmda.
 • Aðgerðateymi vinnur með umsjónarkennara að áætlun um upprætingu eineltisins. Áætlunin er kynnt viðkomandi starfsmönnum innan skólans.
 • Aðgerðateymi boðar foreldra/forráðamenn þolanda og geranda til fundar.
 • Foreldrum/forráðamönnum  þolanda og geranda er gerð grein fyrir:

                a) þeirri aðstoð sem skólinn getur veitt nemendunum.

                b) hvað þeir geta sjálfir gert til að aðstoða börn sín.

c) að þeim standi til boða að tala við skólasálfræðinginn og aðra sérfræðinga  sem skólinn hefur aðgang að.

 • Umsjónarkennari vinnur markvisst að því að uppræta eineltið í bekknum út frá  bekkjarreglum.
 • Aðgerðateymi gerir fulltrúum í nemendaverndarráði grein fyrir stöðu mála.
 • Aðgerðateymi skráir allt ferlið á sérstakt skráningarblað sem  farið verður með sem trúnaðarmál og geymt á öruggum stað.
 • Ef ekki tekst að leiða mál til lykta er málinu vísað til félagsmálayfirvalda ásamt skráningu á málsatvikum.

 

Hvað geta foreldrar/forráðamenn gert til að hjálpa börnum sínum að takast á við einelti?

 • Rætt við og hlustað á barnið segja frá starfinu í skólanum og ferðum til og frá skóla.
 • Hvatt barnið til þess að vera ákveðið, þora að standa á sínu og svara fyrir sig.
 • Hvatt barnið til þess að tala um líðan sína.
 • Haft samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa, stjórnendur skólans og/eða forráðamenn gerenda.
 • Brugðist við vanda barnsins með þolinmæði og umhyggju.
 • Látið barnið finna að það á ekki sök á eineltinu.
 • Nauðsynlegt er að hjálpa barninu að mynda vinatengsl eða styrkja þau sem fyrir eru.

 
Einn vinur getur skipt sköpum


Ef barn er gerandi. Hvað geta foreldrar/forráðamenn þess gert?

 • Gefið barninu skýr skilaboð um að einelti er alvarlegt mál og slík hegðun verði ekki liðin.
 • Fylgst vel með barninu, hvernig það verji frítíma sínum og lagt sig fram um að kynnast vinum þess.
 • Haft samband við skólann og fengið aðstoð við að bæta og breyta hegðun barnsins.

 

Allir geta unnið að eineltismálum

Okkur hættir til að ætla sérfræðingum að bera ábyrgð á því  sem er vandasamt, erfitt og flókið. Lausnin liggur þvert á móti í því að allir deili ábyrgð og láti sig líðan annarra varða, sýni umburðarlyndi og nærgætni í garð náungans. Við getum öll verið sammála um að einelti er hegðunarmynstur sem nauðsynlegt er að uppræta þannig að enginn þurfi að búa við þá niðurlægingu sem eineltinu fylgir.

Stöndum saman gegn einelti

Fróðleikur um eineltismál:

Góð ráð til foreldra.  Heimili og skóli. Gegn Einelti – Handbók fyrir skóla. Æskan

Go to top