Það er yfirlýst stefna Grunnskólans á Hellu að gera alla  nemendur skólans meðvitaða um þær hættur sem að samfélagi okkar steðja.  Nemendur eru þjálfaðir í helstu viðbrögðum við slíkum hættum, jafnt utan skóla sem innan.  Það er einnig yfirlýst stefna skólans að vera á móti og berjast gegn hvers konar notkun á vímuefnum og öðrum þeim efnum og gjörðum sem skaðað geta börn og ungmenni.  Innan skólans er stöðugt unnið að fræðslu og forvörnum af ýmsu tagi meðal allra nemenda skólans.  Sem dæmi um forvarnir má nefna viðbrögð við slysum, eldsvoðum, jarðskjálftum, sjúkdómum, vímuefnum og yfirleitt öllu því, sem ógnað getur lífi og heilsu.  Nemendur og kennarar fjalla um ofangreindar hættur og viðbrögð við þeim innan þeirra námsgreina sem best eru til þess fallnar s.s. lífsleikni, náttúrufræði, samfélagsfræði o.fl.  Þetta er einnig gert í tengslum við ýmis átaksverkefni sem upp koma á hverjum tíma.
Grunnskólinn á Hellu er vímuefnalaus vinnustaður
Innan einstakra námsgreina og yfirleitt í öllum samskiptum sínum við nemendur reyna starfsmenn skólans að stuðla að jákvæðum þroska þeirra.  Reynt er að byggja upp sjálfstraust, sjálfsögun, ábyrgð og dómgreind, þannig að auðveldara sé fyrir þá að segja nei við þeim neikvæða þrýstingi sem börn og unglingar verða stöðugt fyrir.  Stuðst er við hefðbundið námsefni auk námsefnis frá Krabbameinsfélaginu, námsefnið "Að ná tökum á tilverunni" og þemaefnið "Ég er það sem ég er" ásamt fleiru. 
Um þessar mundir er Grunnskólinn á Hellu virkur þátttakandi í forvarnarverkefni sem unnið er að innan Rangárvallarsýslu.Þetta verkefni er unnið af stýrihóp sem starfar undir forystu sýslumanns.Með hópnum starfar þrautreynt fagfólk í forvörnum meðal ungmenna s.s. starfsmenn frá “Vertu til”.“Vertu til” er forvarnarverkefni sem unnið er að innan vébanda Sambands íslenskra sveitarfélaga.Sjá nánar vefsíðu verkefnisinshttp://www.vertutil.is/


Samkvæmt skólareglum og samkvæmt landslögum eru reykingar eða neysla áfengis bönnuð á lóð eða í húsnæði skólans.  Sama gildir um allar skemmtanir og ferðalög nemenda.  Í samráði við foreldra er upplýsingaskylda starfsmanna skólans túlkuð á þann hátt að foreldrar eru látnir vita um leið og staðfestur grunur er um að nemendur séu að fikta við reykingar, áfengi eða eitthvað þaðan af verra.  Grunnskólinn á Hellu fer fram á það við foreldra að þeir virði lögskipaðan útivistartíma barna og unglinga.  Einnig fer  skólinn fram á það við alla þá aðila sem að skemmtanahaldi koma, að þeir sýni ábyrga afstöðu til aldurstakmarkana á þær skemmtanir þar sem áfengi er haft um hönd. Ef einhver mál koma upp í skólastarfinu, sem tengjast ofanrituðu, er haft samband við heimilið og unnið úr þeim í samráði við foreldra (forráðamenn).  Einnig eru slík mál tekin fyrir í nemendaverndarráði.  Skólinn starfar að þessum málaflokkum í nánu samstarfi (samráði) við heilsugæslu, lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndaryfirvöld. 

http://www.marita.is
http://theantidrug.com
http://www.fikno.is
http://www.forvarnir.is
http://www.saa.is
http://www.lydheilsustod.is
http://www.samhjalp.is

  
 


 
Go to top