Umhverfi og slysavarnir
Það er stefna Grunnskólans á Hellu að allt starfsumhverfi hans sé hættulaust, jafnt fyrir nemendur og starfsmenn.  Það er stefna skólans að allir nemendur og allir starfsmenn hans hafi þekkingu á og æfi rétt viðbrögð við hvers konar vá sem yfir getur dunið á skólatíma. 

Stefnt er að því að skólalóðin verði formlega afmörkuð og að framtíðarhönnun hennar verði unnin með þarfir nemenda í huga.  Skólalóðin og leiktæki skólans þurfa að vera aðlaðandi og þannig úr garði gerð að þau skapi ekki hættur.  Í þeim málum er reynt að fylgja gildandi reglum og leiðbeiningum fagfólks. 
Það er krafa skólans, að allt umhverfi hans þ.m.t. leiksvæði, göngustígar og almennt aðgengi að skólanum sé vel upplýst í skammdeginu. Það er einnig krafa skólans að stöðugt sé unnið að hálkueyðingu á skólalóð og öðrum ferðaleiðum nemenda þegar þurfa þykir. 
Stöðugt er unnið að því að lagfæra skólahúsið og er þá haft að leiðarljósi að skólahúsið hæfi þeim nemendum sem þar starfa og að þar leynist ekki slysagildrur. 
Í frímínútum er gæsla á skólalóð og á skólagöngum, þar sem reynt er eftir föngum að afstýra óhöppum og aðstoða nemendur sem þess þurfa.Leitast er við að nemendur séu undir leiðsögn eða gæslu kennara eða annarra starfsmanna á meðan á skólatíma stendur. 
Nemendur í skólaakstri og í skólaferðum nota öryggisbelti í skólabílum og rútum. 
Allir starfsmenn skólans sem starfa með, eða eru í samskiptum við nemendur skulu hafa undirstöðuþekkingu í skyndihjálp og slysavörnum.
 
Viðbragðsáætlanir gegn vá
 
Rýmingaráætlun
Í skólastarfi þar sem hundruðir nemenda starfa daglega saman auk fjölda starfsmanna, þarf að gera ráð fyrir að óvæntir og hættulegir atburðir geti komið upp.  Við slíkum atburðum verður skólinn að geta brugðist eins vel og faglega og kostur er.  Í sumum tilfellum getur þurft að rýma skólahúsið í skyndi þ.e. til þess að forða nemendum og starfsmönnum frá hættu sbr. ef upp kemur eldur á skólatíma og ef jarðskjálftar dynja yfir.  Eins getur þurft að rýma skólann ef nota þarf skólahúsnæðið sem fjöldahjálparstöð, en Grunnskólinn á Hellu er skráður sem fjöldahjálparstöð sem áætlað er að sé starfrækt undir stjórn Rauðakross Íslands.   Fjöldahjálparstöð er  m.a. opnuð ef taka þarf á móti fólki úr nærsveitum, sem yfirgefa þarf heimili sín og eða vinnustaði í skyndi vegna aðsteðjandi hættu.
Á sama hátt þarf að vanda viðbrögð ef óveður geisar.  Í slíkum tilfellum þurfa starfsmenn skólans að þekkja vinnulag og viðbrögð varðandi heimferðir nemenda o.fl.
 
Jarðskjálftar 
 
Jarðskjálfti á skólatíma 
Ef jarðskjálfti dynur yfir á skólatíma ber nemendum og kennara að leita skjóls undir kennsluborðum og að öðru leyti að hlífa sér eftir föngum.  Húsnæðið er rýmt samkvæmt rýmingaráætlun.  Rýming skólans fer fram sem hér segir:  Nemendur og starfsmenn yfirgefa skólahúsið eftir stystu mögulegri opinni leið sem finnst.  Rýmingarleiðir eru festar á veggi við útgöngudyr hverrar kennslustofu.  Kennari reynir að halda ró sinni og aðstoðar nemendur eftir föngum.  Kennari tekur með sér nemendaskrá út úr skólanum og heldur utan um nemendahópinn.  Nemendur og starfsmenn safnast saman á söfnunarsvæðum A, B, C og D.  Kennarar taka manntal til þess að tryggja að allir nemendur hafi komist út.  Ef slys hefur orðið eða ef einhverra er saknað verður það tilkynnt til björgunaraðila eins fljótt og unnt er.  Starfsmenn munu að sjálfsögðu hefja aðgerðir til aðstoðar eins og aðstæður leyfa.  Tryggja verður þó að slíkar aðgerðir orsaki ekki meiri hættu.  Nemendum er uppálagt að ganga í harðbotna inniskóm til þess að reyna að koma í veg fyrir að þeir skeri sig á fótum á glerbrotum og til varnar kulda utandyra.  Ef illviðri geisar þegar jarðskjálfti ríður yfir verður reynt að leita skjóls í Skóladagheimilinu, sem er léttbyggt timburhús og ætti að standast jarðskjálfta nokkuð vel.  Varast ber að leita skjóls undir háum húsveggjum og í nágrenni við glugga.  Starfsmenn skólans munu annast um nemendur uns þeir verða sóttir af foreldrum eða forráðamönnum.  Ef jarðskjálfti verður í frímínútum verða nemendur látnir safnast saman á söfnunarsvæðunum og hefðbundið ferli fer í gang. 
 
SÖFNUNARSVÆÐI 
 
Ef nemendur og starfsfólk þurfa að yfirgefa skólahúsið í skyndi vegna bruna, jarðskjálfta eða annarar hættu sem steðjað getur að, er skylt að safnast saman á eftirtöldum stöðum þ.e. uns manntal hefur farið fram og ákvörðun verið tekin um aðrar ráðstafanir.  
 
Svæði A:  Myndmenntastofa, tónmenntastofa, hannyrðastofa,  heimilisfræðistofa  
Söfnunarsvæði A:  Nálægt kjallarainngangi við austurgafl.  
Svæði B:  Stofur 1, 2,  3 sérkennslustofa (eldri), bókasafn, og stjórnunarrými.  
Söfnunarsvæði B: Íþróttavöllur nálægt bílastæði skólabíla.   
Svæði C:  Stofur  4, 5, 6, S deild, smíðastofa íþróttahús og sundlaug.  
Söfnunarsvæði C:  Stétt við inngang í sundlaugarhús.   
Svæði D:  Stofur  7, 8, 9, 10, sérkennsluherbergi (yngri) og skóladagheimili.  
Söfnunarsvæði D: Sparkvöllur sunnan við íþróttahús.  
  
 
Bruni 
Ef eldur verður laus í skólahúsnæðinu eða ef eldvarnarkerfið gefur slíkt til kynna verður skólinn rýmdur tafarlaust.  Í hverju rými er spjald sem sýnir öruggustu rýmingarleiðirnar.  Nemendur og starfsmenn yfirgefa skólann og safnast saman á söfnunarsvæðum A, B, C og D.  Þeir skilja eftir allt sitt dót og hugsa um það eitt að komast út á öruggan hátt.  Nemendur og starfsmenn fara eftir gildandi ráðleggingum um rýmingu húsnæðis í eldsvoða t.d. með því að kanna hitastig og stöðu elds og reyks í húsnæðinu.  Ef ferðast þarf um rými sem reykur er í verður reynt að tryggja að nemendur fari með gólfum.  Kennarar taka með sér bekkjarskrár og gera manntal á söfnunarsvæði til þess að tryggja að enginn hafi orðið eftir inni.  Bruni er tilkynntur á hefðbundinn hátt til Neyðarlínu.  Á meðan beðið er eftir slökkviliði annast starfsmenn skólans nemendurna og koma þeim í skjól í nærliggjandi byggingum.  Starfsmenn reyna síðan eftir föngum að tryggja að allir nemendur komist til síns heima með öruggum hætti.
 
Óveður 
Ef fella þarf niður kennslu vegna óveðurs, verður það tilkynnt í hljóðvarpi eins fljótt og hægt er.  Þegar óveður geisar við upphaf skóladags, þá er það alfarið á ábyrgð foreldra hvort þeir senda börn sín í skólann eða ekki.  Slík forföll ber að tilkynna eins og önnur forföll. Ef óveður skellur á á skólatíma verður nemendum ekki hleypt heim nema í öruggri fylgd foreldra eða annarra aðila sem til þess eru fengnir (t.d. björgunarsveit).  Í slíkum tilvikum hlýtur alltaf að vera um matsatriði að ræða, þar sem taka verður tillit til aldurs nemenda.  Kennarar og aðrir starfsmenn skólans munu annast nemendur þar til þeir komast heim. 
Önnur vá s.s. eldgos, flóð, eitranir, hryðjuverk o.fl. 
Um aðra vá sem dunið getur yfir samfélagið á skólatíma gilda hefðbundin viðbrögð sem snúast fyrst og fremst að því að tryggja nemendum sem mest öryggi.  Ætíð verður reynt að vinna úr öllum slíkum málum í samráði við foreldra, lögreglu, björgunarlið eða hvern þann aðila sem komið getur að liði. 
 
Fjöldahjálparstöð
Grunnskólinn á Hellu er ein af þeim stofnunum sem skráð er sem fjöldahjálparstöð fyrir Suðurland undir stjórn Rauðakross Íslands.  Slík stöð verður opnuð ef einhverjir þeir atburðir gerast sem ógnað geta lífi og velferð íbúa á Suðurlandi.  Sem dæmi um slíka atburði má nefna jarðskjálfta, flóð og öskufall frá eldgosum, bruna eða hrun fjölmennra bygginga og hópslys af einhverju tagi svo að eitthvað sé nefnt.  Ef nauðsyn er til að opna fjöldahjálparstöð í skólahúsnæðinu á skólatíma, verða nemendur sendir heim í samráði við foreldra (þarf að taka tillit til aldurs).  Starfsmenn skólans munu gæta þess að þeir nemendur sem sendir verða heim verði í engum tilfellum sendir inn á skilgreind hættusvæði.
 
Æfingar
Ráðgert er að nemendur og starfsmenn taki þátt í æfingum í viðbrögðum við ofangreindum hættum.  Leitast verður við að hafa samráð við fagaðila um skipulag og úrvinnslu æfinganna. 
 
Neyðarupplýsingar
Mikilvægt er fyrir starfsemi skólans að hafa staðgóðar upplýsingar um hvar hægt sé að ná í aðstandendur nemenda ef slys eða aðra vá ber að höndum á skólatíma.  Einnig er mikilvægt að fá vitneskju um hvort nemendur séu haldnir einhverjum líkamlegum kvillum sem hugsanlega geta truflað þá í leik og starfi.  Neyðarupplýsingar eru geymdar á kennarastofu skólans.  Leitað er eftir neyðarupplýsingum um nýja nemendur. 
 
Munið að neyðarupplýsingarnar eru fyrst og fremst hugsaðar nemendum til öryggis.
Go to top