Áföll:
Það er stefna Grunnskólans á Hellu að bregðast vel og rétt við þeim áföllum sem nemendur og starfsmenn skólans kunna að verða fyrir jafnt innan skólans sem utan.  Einnig þarf skólinn að geta brugðist við þeim áföllum sem mæta byggðarlaginu í heild.
Sem dæmi um þau áföll sem hér um ræðir má nefna: 
- Alvarleg slys eða dauðsföll nemenda, foreldra þeirra og náinna ættingja.
- Alvarleg slys eða dauðsföll á meðal starfsmanna.
- Langvarandi veikindi.
- Slys í vettvangsferðum.
- Skilnaður foreldra.
- Atvinnumissir foreldra.
- Önnur áföll sem upp kunna að koma.
 
Viðbrögð við áfalli:
Þegar brugðist er við áföllum líkum þeim sem talin eru upp hér að ofan þarf að taka tillit til aðstæðna hverju sinni.  Mismunandi getur verið hvernig brugðist verður við þ.e. hvort áfallið verður á skólatíma eða utan skólatíma.  Ef áfallið verður á skólatíma þarf að bregðast mjög skjótt við til þess að aðstoða nemendur og starfsmenn sem fyrir áfallinu verða.  Í slíkum tilfellum er ákvörðun um viðbrögð í höndum skólastjórnenda í samráði við það starfsfólk sem er til staðar.  Ef áfallið verður utan skólatíma gefst meiri tími til undirbúnings og auðveldara ætti að vera að ná til fagfólks til aðstoðar ef þurfa þykir.
 
1 - Slys og dauðsföll nemenda:
Ef upplýsingar berast til skólans um að nemandi hafi slasast illa eða látið lífið t.d. vegna sjúkdóms eða slysfara verður strax leitað eftir staðfestingu á atburðum hjá fjölskyldu, heilsugæslu, sóknarpresti eða lögreglu.  Þegar staðfesting hefur fengist eru starfsmenn skólans látnir vita eins fljótt og auðið er (tilkynning á töflu).  Haft er samband við sóknarprest og hann beðinn um að koma í skólann og ræða við nemendur og starfsmenn.  Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri ganga með sóknarpresti í skólastofur.  Fyrst er farið í stofu viðkomandi nemanda og síðan í aðra bekki.  Sóknarprestur segir nemendum frá atburðum, kveikt er á kerti og hins slasaða/látna minnst með bæn.  Sóknarprestur dvelur í skólanum í nokkurn tíma til þess að vera til taks fyrir þá sem þess þurfa.  Ef ekki næst í sóknarprest sinna skólastjórnendur upplýsingahlutverkinu.  Reynt er eftir föngum að halda stundaskrá bekkjanna.  Umsjónarkennari vinnur með bekknum að samúðarkortum og kveðjum.  Skólastjórnendur og umsjónarkennari heimsækja fjölskyldu og færa blóm og kveðjur frá skólanum.  Flaggað er í hálfa stöng við andlát.
 
2 - Slys og dauðsföll foreldra og náinna ættingja:
Ef upplýsingar berast til skólans um að foreldrar, systkini eða aðrir nákomnir ættingjar hafi slasast illa eða látið lífið t.d. vegna sjúkdóms eða slysfara er leitað eftir staðfestingu á atburðum.  Þegar staðfesting hefur fengist um að foreldrar eða systkini hafi slasast eða látist, er gripið til álíkra ráða og segir í lið 1. 
Ef um aðra nákomna ættingja eða vini er að ræða er leitað eftir samráði við fjölskyldu um á hvern hátt brugðist er við.  Viðbrögð í slíkum tilvikum getur verið talsvert mismunandi.  Þar getur spilað inn í hversu náin tengsl eru á milli aðila.  Hér þurfa að koma til væntingar og upplýsingar frá fjölskyldu um tilfinningar og upplifun barnanna af viðkomandi atburðum.
 
3 - Slys og dauðsföll á meðal starfsmanna:
Ef upplýsingar berast til skólans um að starfsmenn eða aðrir aðilar sem tengjast skólanum náið hafi slasast illa eða látist er leitað eftir staðfestingu á atburðum.  Um viðbrögð innan skólans er farið eftir sama ferli og um getur í lið 1. 
 
4 – Langvarandi veikindi á meðal nemenda eða veikindi á heimilium þeirra:
Ef upplýsingar berast til skólans um að nemendur eða nánustu ættmenn þeirra þjáist af langvarandi alvarlegum sjúkdómum er upplýsingum komið á framfæri við starfsmenn. Upplýsingar sem færðar eru nemendum eru ákvarðaðar í samráði við foreldra eða forráðamenn.
 
5 – Slys í vettvangsferðum:
Í öllum vettvangsferðum eru nemendur undir eftirliti kennara og/eða annara starfsmanna skólans.  Ef nemandi verður fyrir slysi í vettvangsferð mun kennari / starfsmaður meta aðstæður og alvarleika slyssins.  Ef slysið er alvarlegt hefur kennarinn strax samband við neyðarlínu í síma 112, eða lækni sem vitað er um í nágrenni við slysstað.  Kennarar á vettvangi hafa samband við skólastjórnendur eins fljótt og auðið verður og veita upplýsingar um ástand hins slasaða og hvert ráðgert sé að flytja hann til aðhlynningar.  Skólastjórnendur munu þá þegar hafa samband við foreldra viðkomandi nemanda og liðsinna þeim eftir föngum.  Ef slysið er mjög alvarlegt er að mestu fylgt viðbragðsplani samkvæmt lið 1.
 
6 - Önnur áföll: 
Undir liðin önnur áföll má flokka áföll s.s. skilnað foreldra, atvinnuleysi þeirra, eldsvoða á heimili, o.fl.
Um leið og upplýsingar berast um slík áföll eru starfsmenn upplýstir um stöðu mála.  Kennarar og aðrir starfsmenn styðja við bakið á nemendum eins og kostur er.  Á slíkum stundum þurfa nemendur að fá mikinn stuðning og skilning frá starfsfólki og skólasystkinum.
Einnig mun skólinn bregðast við áföllum sem kunna að dynja yfir samfélagið í heild sinni.  Hvort heldur að um sé að ræða náttúruhamfarir, slys, farsóttir eða önnur þau áföll sem kunna að ganga yfir það samfélag sem hann þjónar (sjá viðbragðsáætlun skólans).
 
7 – Almennt um aðstæður í skólanum:
Stefnt er að því að allir starfsmenn skólans séu vel undirbúnir á að takast á við þau áföll sem mætt geta þeim í starfi.  Skipulögð verða námskeið fyrir alla starfsmenn um sorg og sorgarviðbrögð þar sem farið er yfir helstu viðbrögð og aðgerðir innan skólans.  Á bókasafni skólans verður tryggt að til sé skrá yfir bækur er fjalla um sorg og sorgarviðbrögð.  Einnig verður þar sérstök skrá yfir bækur sem gott er að lesa fyrir börn, þegar tekist er á við þá óvissu og sorg sem fylgir áföllum og slysum.
Go to top