Námsmat

Námsmat Grunnskólans Hellu

Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að megintilgangur námsmats sé að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda.

Markviss endurgjöf til nemenda er sífellt í gangi. Nemendur og kennarar ræða reglulega saman um markmið og framvindu námsins ýmist í hópum eða einslega. Markmiðið er ávallt að finna út hvað beri árangur og hver næstu skref skulu vera.

Formlegt námsmat fer fram í gegnum hæfnikort í Mentor. Þar koma hæfniviðmið fram sem metin eru reglulega. Nemenda- og foreldraviðtöl fara fram tvisvar á ári í lok 1. og 2. annar eða í nóvember og febrúar ár hvert. Þar er farið yfir framvindu námsins, m.a. í gegnum hæfnikortin og framhaldið rætt. Allir nemendur skólans fá vitnisburðarblöð að vori.

Lögð er áhersla á fjölbreyttar leiðir í námsmati í Grunnskólanum Hellu.

Lykilhæfni tengist öllum námsgreinum skólans og vísar til hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum. Lykilhæfni vísar til alhliða þroska nemandans. Hún er metin um leið og þekking og leikni í hinum mismunandi greinum og fléttast gjarnan inn í annað námsmat. Viðmið um matið eru sett fram í fimm liðum sem eiga við öll námssvið:

Tjáning og miðlun
Skapandi og gagnrýnin hugsun
Sjálfstæði og samvinna
Nýting miðla og upplýsinga
Ábyrgð og mat á eigin námi

Sjá frekar veggspjald hér að neðan: Veggspjald um lykilhæfni