Bæjarhellan er þróunarverkefni við Grunnskólann á Hellu. Markmið Bæjarhellunnar er að efla foreldrasamstarf við skólann, auka ánægju nemenda og kennara og efla fjölbreytileikann í skólastarfinu. Verkefnið á að líkja eftir lýðræðissamfélagi þar sem nemendur leika aðalhlutverkið. Þar sem við erum grænfánaskóli hefur verkefnið þróast í þá átt í gegnum árin og margar starfsstöðvar sem boðið er upp á nota að mestu efnivið sem þegar er til í skólanum eða í nærsamfélaginu. Gaman er að segja frá því að elsti árgangur leikskólans hefur tekið þátt í verkefninu nánast frá upphafi.
Hugmyndina að verkefninu er fengin frá Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem sambærilegt verkefni, sem kallast Barnabær, hefur verið í þróun frá árinu 2011. Eydís Hrönn sem er kennari við skólann vann áður við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem hún kynntist Barnabæ. Þegar hún flutti aftur á Hellu var komið að því að vinna lokaverkefni í meistaranámi hennar frá HÍ þegar hún fékk þá hugmynd að setja upp sambærilegt verkefni við skólann á Hellu. Sigurgeir Guðmundsson fyrrverandi skólastjóri tók vel í hugmyndina og úr varð að fyrsta Bæjarhellan var sett í maí árið 2014.
Hér má finna ýmsar upplýsingar um Bæjarhelluna.