Fjölbreyttir kennsluhættir

Fjölbreyttir kennsluhættir

Í hverri kennslustofu mætast nemendur með ólíkan bakgrunn og mismunandi reynsluheim. Þar sitja einstaklingar með ólíkan menningarlegan bakgrunn og jafnvel með ólík móðurmál. Þar sitja bráðgerir nemendur við hlið nemenda með skerta námshæfileika í einni eða fleiri námsgreinum. Segja má að sérhver kennslustofa sé eins og spegill samfélagsins hvað þetta varðar. Allir nemendur eiga rétt á kennslu við sitt hæfi þ.e. aukinni einstaklingsmiðun sem m.a. næst með fjölbreyttum kennsluháttum. Kennarar leytast við að skapa nemendum námsumhverfi með sveigjanlegu rými og námsvali þar sem hlúð er að áhuga og hæfileikum hvers og eins.

Nemendum í 9. og 10. bekk, sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að taka þátt í hefðbundnu námi, býðst að taka starfstengt nám. Í slíkum tilfellum er í samráði við foreldra leitað eftir samkomulagi við ákveðna vinnustaði þar sem nemandinn fær tækifæri til þess að starfa hluta úr degi undir leiðsögn. Markmiðið með starfsnáminu er að nemendur kynnist atvinnulífinu og læri að standa sig á vinnumarkaði. Þeir geri sér grein fyrir hvaða ábyrgð og skyldur felist í því að vera ráðinn í vinnu, þurfa að mæta þar á réttum tíma, taka við fyrirmælum frá yfirmönnum og laga sig að starfsreglum sem gilda á staðnum.