Stefna og fyrirkomulag
Í Grunnskólanum á Hellu er starfrækt mötuneyti og er staðsetning þess í íþróttahúsinu. Í mötuneytinu er framreidd morgunhressing og hádegisverður fyrir nemendur skólans.
Gert er ráð fyrir að allir nemendur skólans séu skráðir í mötuneytið að hausti og þeir fái þar hollan og góðan hádegisverð og morgunhressingu. Foreldrar geta skráð börn sín úr mötuneytinu með því að útfylla sérstök eyðublöð. Slíkum úrsögnum þarf að koma á skrifstofu skólans.
Í mötuneytinu starfar matreiðslumaður og aðstoðarmenn hans. Þessir þrír starfsmenn eru hluti af starfsliði skólans. Auk þeirra ganga kennarar og skólaliðar vaktir á matmálstímum eftir þar til gerðu skipulagi.
Stefna:
Í allri starfsemi mötuneytisins er haft að leiðarljósi að fylgja ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni og fylgja leiðbeiningum í Handbók fyrir skólamötuneyti sem gefin var út af Lýðheilsustöð.
Í mötuneyti Grunnskólans á Hellu er lögð áhersla á að nemendur njóti fjölbreyttrar fæðu sem samansett er úr fyrsta flokks hráefni sem valið er úr öllum fæðuflokkum . Lögð er áhersla á að matvæli séu rík af næringarefnum, séu fersk, í háum gæðaflokki og taki mið af stefnu og ráðleggingum Lýðheilsustöðvar hvað varðar fæðuval, næringargildi og skammtastærðir.
Nemendur eru hvattir til að smakka á öllum mat sem þeim er framandi með það að markmiði að draga úr matvendni og auka fjölbreyttni.
Stefnu mötuneytisins skal m.a. náð með eftirfarandi leiðum:
- Hádegisverður verði þannig samsettur að einn þriðjungur af diskinunum sé grænmeti/ávextir, annar þriðjungur af diskinum kolvetnarík matvæli til dæmis gróft og trefjaríkt kornmeti eða kartöflur og þriðji þriðjungurinn próteinrík matvæli til dæmis fiskur,kjöt,egg,baunir eða mjólkurvörur.
- Matseðill er gerður fyrir 4-5 vikur í senn. Hann er birtur á heimasíðu skólans og á að vera mjög lýsandi fyrir samsetningu og innihald hvers hádegisverðar.
- Starfsfólk í skólamötuneytinu verði ávallt vel upplýst um mikilvægi fjölbreyttrar fæðu,um ferskleika og gæði matvæla.
- Við innkaup á matvælum verði ávallt leitast við að kaupa matvæli sem eru fersk og í háum gæðaflokki, séu valin með hagkvæmni að leiðarljósi og keypt af viðurkenndum birgjum.
- Fiskur er hafður einu sinni til tvisvar í viku.
- Kjöt er haft einu sinni til tvisvar í viku.
- Léttmeti er haft allt að einu sinni í viku sem miðast við til skiptis við kjöt eða fiskmáltíð. (Léttmeti geta verið matarmikill spónamatur,bauna , pasta, pizzur og grænmetisréttir)
- Spónamatur er hafður í eftirmat eftir soðnum fiski þegar því verður við komið.
- Meðlæti með mat er gróft og trefjaríkt svo sem híðishrísgrjón, bygg, hafrar og gróft brauðmeti.
Morgunhressing.
Ávextir eru bornir fram sem hér segir:
1. – 7. bekkur: Fær ávextina á bökkum inn í heimastofur sínar á tímabilinu frá kl. 08:50 – 09:15.
8. – 10. bekkur: Fær ávextina framreidda hjá gangaverði í setustofu unglinga á tímabilinu frá kl. 09:30 – 09:50.
Hádegisverður samanstendur af eftirfarandi tegundum máltíða.
- Með hádegisverði er vísir af salatbar sem er alltaf eð iceberg, gúrkur, paprikum og tómötum. Til að auka fjölbreytni salatbarsins er stundum boðið upp á rauðlauk, spínat, hvítkálssalat, niðurrifnar gulrætur, sólþurrkaða tómata, fetaost, ananas o.fl.
- Meðlætissósur eru búnar til úr sýrðum rjóma og léttmæó.
- Við matreiðslu er notuð jurtaolía eða smjör.
- Enginn djúpsteikingarpottur er í mötuneytinu.
- Léttmjólk og drykkjarvatn er í boði alla daga.
Ef franskar eru í boði eru þær ofnbakaðar
Nemendur ganga til hádegisverðar sem hér segir:
1. - 3. bekkur: Borðar hádegisverð á tímabilinu frá klukkan 11:25 - 11:55
4. - 7. bekkur: Borðar hádegisverð á tímabilinu frá klukkan 11:55 - 12:25
8. - 10. bekkur: Borðar hádegisverð á tímabilinu frá klukkan 12:25 - 12:55
Á föstudögum fá þeir nemendur sem vistaðir eru í skóladagheimilinu hádegisverð á tímabilinu frá kl. 12:00 – 12:30.
Í mötuneytinu ganga nemendur 1. - 3. bekkjar í röð að afgreiðsluborði og fá þar skammtaðan mat frá starfsfólki. Þar sem matmálstíminn er hluti af skóladegi nemenda, er lögð áhersla á uppeldislegt gildi hvað varðar matarvenjur, borðsiði og tillitsemi. Matarskömmtun miðast við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar sem tekur mið af næringargildi og orkuþörf viðkomandi aldurshóps og eiga allir kost á einni ábót og ganga saddir frá borði. Nemendur 4. - 10. bekkjar skammta sér matinn sjálfir.
Yfirfarið í ágúst 2024