Umferðarfræðsla

Umferðarfræðsla

Leiðin milli heimilis og skóla Umferðin er óaðskiljanlegur þáttur af daglegu lífi okkar og óhætt að fullyrða að flestir nemendur kynnast henni í hnotskurn á leið sinni í skólann. Eitt af verkefnum grunnskólans í upphafi hvers skólaárs er að fjalla um leiðina milli heimilis og skóla með það að markmiði að auka öryggi nemenda í umferðinni. Nemendur verða að gera sér grein fyrir hvers eðlis umferðin er svo að þeir geti lært að ferðast um á öruggan hátt. Gott samstarf við heimili nemenda er forsenda þess að árangur náist á þessu sviði.

Umferðin umhverfis skólann er sá þáttur fræðslunnar sem snýr næst skólanum að vinna með. Þar er margs að gæta og umferðarálag oft mikið sérstaklega við upphaf skóladags þegar fjöldi bíla streymir að með nemendur og á þetta bæði við skóla í þettbýli og á fámennari stöðum. Margir nemendur þurfa einnig að fara mislangan veg til að komast í íþróttir á vegum skólans, annað hvort fótgangandi eða með skólabíl. Því er mikilvægt að nemendur þekki vel til umferðarinnar í nánasta umhverfis skólans og hentugt að hefja umferðarfræðslu skólaársins á því að taka það fyrir.

Undanfarin ár hefur athyglin beinst æ meir að hreyfingaleysi barna og unglinga í samhengi við mikla notkum tölvuleikja og aukna sjónvarpsnotkun. Embætti landlæknis hefur tekið á málinu og á vef þess er að finna fjölbreytt efni um ágæti hreyfingar sem kennarar geta nýtt sér og tengt við umfjöllun um leiðina milli heimilis og skóla. Auk þess að fræða nemendur um heilsufarslegt gildi þess að ganga eða hjóla í skólann má einnig vinna með ávinning þess fyrir umhverfið og þann samfélagslega sparnað sem það hefur í för með sér.